Húsadreki (Chelifer cancroides)

Útbreiðsla

Um heim allan.

Ísland: Allvíða á suðvesturhorninu, frá Grindavík austur í Biskupstungur, einnig í Hvalfirði, á Hellissandi og í Steingrímsfirði, svo og við Eyjafjörð; Siglufjörður, Ólafs-fjörður og Akureyri.

Lífshættir

Húsadreki lifir alfarið í híbýlum hér á landi, þó erlendis finnist hann einnig í útihúsum, korngeymslum og verksmiðjum. Af þessum sökum gerir húsadreki ekki greinarmun á árstíðum og heldur sínu striki allan ársins hring. Kjörlendið er rök skúmaskot, sökklar undir innréttingum og rými á bak við þiljur. Þar er ryklúsa helst von en á þeim lifir drekinn.

Almennt

Húsadreki fannst fyrst á Siglufirði 1967 og var vakin á honum athygli í Morgunblaðinu. Hann fannst svo næst í Reykjavík 1973. Síðan þá hefur húsadreki fundist reglulega á höfuðborgarsvæðinu en því fer fjarri að hann teljist algengur. Hann finnst einkum í eldri húsum, er felugjarn og kemur sjaldan fyrir augu annarra íbúa híbýlanna. Húsadrekinn agnarsmái er heillandi áttfætla sem vekur gjarnan aðdáun og undrun þeirra sem hann berja augum. Hann ber langa þreifara með kröftuga, eitraða griptöng á endanum sem hann mundar fimlega þegar hann veiðir ryklýsnar og færir þær upp að munninum. Hann minnir því í útliti á sporðdrekann, ættingja sinn, en halann vantar. Þess vegna kallast dýr þessa ættbálks drekar (án sporðs).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Guðbrandur Magnússon 1974. Bókaskorpíón (Chelifer cancroides). Týli 4: 79–80.

Ingi Agnarsson 1998. Íslenskar langfætlur og drekar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 35. 34 bls.

Legg, G. & R.E Jones 1988. Pseudoscorpiones. Synopses of the British Fauna (New Series) 40. The Linnean Society of London. 159 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009.

Biota

Tegund (Species)
Húsadreki (Chelifer cancroides)