Týrusporðdreki (Euscorpius flavicaudis)

Týrusporðdreki - Euscorpius flavicaudis
Mynd: Erling Ólafsson
Týrusporðdreki með nýfædda unga. ©EÓ
Týrusporðdreki - Euscorpius flavicaudis
Mynd: Erling Ólafsson
Týrusporðdreki. 35 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

S-Evrópa; Frakkland, Ítalía og Spánn. Barst til S-Englands á 18. öld og hefur lifað þar á nokkrum stöðum síðan í sprungum í gömlum múrsteinshúsum.

Ísland: Slæðingur fundinn í Kópavogi.

Lífshættir

Týrusporðdreki heldur sig þar sem rakt er og hlýtt, í skógum, görðum og skrúðgörðum, einnig á ökrum. Hann er á ferli allt árið og finnst mjög gjarnan í gömlum húsum og rústum, þar sem hann heldur sig í sprungum í veggjum og öðrum fylgsnum. Týrusporðdreki er felugjarn og bíður bráðar í fylgsni sínu í stað þess að leita hana uppi. Hann hremmir bráðina, t.d. skordýr, köngulær, gráloddur og jafnvel aðra sporðdreka, og deyðir með gripklónum en beitir ekki eiturstingnum á halanum. Hann er almennt ógjarn á að beita stingnum og er talinn tiltölulega meinlaus þar sem eitrið er vægt. Ofnæmisviðbrögð geta þó reynst hættuleg.

Týrusporðdreki fæðir lifandi unga eins og aðrir sporðdrekar. Móðirin ber þá með sér á bakinu í nokkra daga og gætir þeirra af umhyggju. Hann nær nokkurra ára aldri.

Almennt

Tveir týrusporðdrekar bárust fyrir slysni til landsins með farangri íslenskra ferðamanna sem höfðu dvalið í sumarhúsi í Suður-Frakklandi í júlí 2009. Síðasta kvöldið (22. júlí) í sumarhúsinu var nokkrum könglum safnað af lóðinni, þeim pakkað og teknir með heim til Íslands. Viku síðar uppgötvuðust sporðdrekarnir í könglunum, annar nýdauður en hinn lifandi. Sá var fullvaxinn. Sporðdrekunum var komið til Náttúrufræðistofnunar 6. ágúst. Þeim sem lífsandann dró var þar haldið lifandi áfram. Sá launaði velgjörðina með því að ala um 20 afkvæmi sem höfðu komið sér fyrir á baki umhyggjusamrar móður sinnar þann 24. ágúst. Um viku síðar tóku afkvæmin að yfirgefa móðurina.

Týrusporðdreki nær 35–45 mm lengd. Bolurinn og halinn er dökkur, næstum svartur, en fætur ljósari. Endaliður halans með eiturstingnum er gulleitur og dregur tegundin íslenskt heiti sitt af ljóstýrunni.

Týrusporðdreki (Euscorpius flavicaudis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Týrusporðdreki (Euscorpius flavicaudis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

UK Safari 2009. European scorpion http://www.uksafari.com/scorpions.htm [skoðað 2.9.2009].

Benton, T.G. 1991. The life history of Euscorpius flavidaudis (Scorpiones, Chactidae). The Journal of Arachnology 19: 105–110.

Jackman, J.A. and Brown, Wizzie 2005. Scorpions. Texas Agricultural Extension Service http://insects.tamu.edu/extension/publications/epubs/e_362.cfm [skoðað 2.9.2009].

Rein, J.O. 2008. European Scorpions. A review of the scorpion fauna of Europe http://www.ub.ntnu.no/scorpion-files/european_scorp.htm [skoðað 2.9.2009].

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |