Tóbakstítla (Lasioderma serricorne)

Útbreiðsla

Talin upprunnin á heittempruðum svæðum og í hitabeltinu en finnst nú um veröld víða, í öllum heimsálfum að Suðurskautslandinu undanskildu.

Ísland: Hefur fundist á höfuðborgarsvæðinu frá Kjalarnesi suður til Hafnarfjarðar; einnig á Bifröst í Borgarfirði, Hellnum, Egilsstöðum og í Nesjum við Hornafjörð.

Lífshættir

Tóbakstítla lifir hér eingöngu innanhúss og verður hennar mest vart frá hausti og fram til vors, en síður á sumrin. Svipar henni að því leyti til brauðtítlunnar (Stegobium paniceum) og er skýringin án efa sú sama, þ.e. minni viðvera heimilisfólks á sumrin og minni áhersla á eldhússtörf en utan hefðbundins sumarleyfistíma.

Kjörhiti tóbakstítlu er 32–35°C og því mun hærri en brauðtítlu. Einnig krefst hún hærra rakastigs eða allt að 70%. Ef hiti fer niður fyrir 21°C stöðvast varp þó bjöllurnar lifi áfram. Við 0°C drepast öll þroskastig á einum mánuði, á sjö dögum við -4°C og einum degi við -12°C. Það er því auðvelt að uppræta tóbakstítlur með kælingu. Kvendýr verpir 50–100 eggjum í sprungur og rifur í fæðuvörunni. Við 30°C klekjast eggin á sex dögum en rúmum tuttugu dögum við 20°C. Litlar lirfur eru afar kvikar og geta lifað án fæðu í u.þ.b. viku. Þroskatíminn er háður hitastigi og raka. Undir 18°C stöðvast vöxtur og þroski og lirfur drepast ef rakastig fer undir 30%. Við kjörið rakastig og 20°C varir lirfustigið í um 70 daga en skemur en 20 daga við 30°C. Fullvaxin byggir lirfan um sig hjúp úr kornum úr matvörunni og munnvatni. Púpustigið varir í 12 daga við 20°C en aðeins fjóra daga við 30°C.

Áherslur tóbakstítlu í fæðuvali eru nokkuð frábrugðnar áherslum brauðtítlunnar. Hún sækist sérstaklega eftir tóbaki, kakóbaunum, kaffibaunum, þurrum kryddvörum, þurrkuðum ávöxtum og þurrkuðu grænmeti. Einnig leggst hún á plöntusöfn, þurrkuð skordýr, leður og vax. Stoppuð húsgögn, textílvörur og bækur eru einnig í hættu. Tóbakstítla leggur sér einnig til munns ýmis lyf og eiturefni. Hún þolir jafnvel skordýraeitur ágætlega og hentar því kæling og þurrkun betur í baráttu gegn henni en eiturherferð. Fullorðnar bjöllur nærast á sömu matvöru og lirfurnar.

Almennt

Tóbakstítla fannst fyrst hér á landi í Reykjavík 1987 og hefur fundist nokkuð reglulega síðan. Hún er þó fátíðari en brauðtítlan enda gerir hún strangari kröfur til hitastigs og raka. Þegar hún kemur upp í eldhússkápum getur hún náð sér vel á strik, er fljót að þefa uppi lyktarsterkar kryddvörur og leggja þær undir sig enda kvik og vel fleyg. Nauðsynlegt er að geyma vörur á óskalista tóbakstítlu í lokuðum ílátum.

Tóbakstítla er áþekk brauðtítlu í útliti. Hún er lítil bjalla, einlit rauðbrún með þéttum, stuttum, gulum hárum á öllu yfirborðinu, ívið styttri hárum en á brauðtítlu. Skjaldvængir eru sléttir, án punktaraða. Liðir fálmara, fyrir utan grunnliðina eru allir áþekkir og áberandi sagtenntir. Af því er fræðiheiti tegundarinnar, serricorne, dregið. Lirfurnar eru hvítar og krepptar, nær fótalausar með rauðbrúnan haus.

Útbreiðslukort

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 5. janúar 2011

Biota

Tegund (Species)
Tóbakstítla (Lasioderma serricorne)