Taðýfill (Agoliinus lapponum)

Taðýfill - Agoliinus lapponum
Mynd: Erling Ólafsson
Taðýfill, fullorðinn. 6,5 mm. ©EÓ
Taðýfill - Agoliinus lapponum
Mynd: Erling Ólafsson
Taðýfill, lirfa. 7 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðanverð Evrasía; í Evrópu á Bretlandseyjum, í Skandinavíu, Finnlandi og norðurhluta Rússlands, einnig í Færeyjum.

Ísland: Land allt, á láglendi og heiðum uppi.

Lífshættir

Taðýfill lifir alfarið í og á húsdýraskít, þ.e. skít grasbíta. Kindaskítur er e.t.v. efstur á matseðlinum en hrossaskítur og kúaskítur eru einnig í góðu lagi. Ekki er kunnugt um að taðýfla hafi verið leitað í hreindýraskít. Fullorðnar bjöllur hafa fundist frá apríl til september en fjöldinn er hvað mestur í seinni hluta júní og í júlí. Hámarksfjöldi lirfa er í kjölfar hámarks hjá bjöllum. Bæði bjöllur og lirfur grafa sig í skítinn og éta hann. Bjöllurnar eru þó gjarnan á ferli utan skítsins, sjást oft á flugi á sólríkum, hlýjum dögum í leit að nýjum skít. Fullþroska lirfur skríða niður úr skítnum til að púpa sig í jarðveginum undir honum. Sennilega leggjast þær í vetrardvala og púpa sig að honum loknum á vori komanda. Það er þó getgáta.

Almennt

Taðýfill er alfarið háður búsmalanum og hefur því varla verið hér fyrir þegar norrænir menn komu fyrst til landsins á sínum tíma. Hann finnst því aðeins þar sem búsmali bítur í haga. Á afréttum þrífst tegundin eingöngu þar sem sauðfé gengur að sumarlagi. Þó ríkir óvissa um hagalönd hreindýra.

Til fróðleiks má geta þess að tegundin gekk lengstum undir íslenska heitinu taðdýfill sem þótti samræmast vel heiti á kunnri tegund í nágrannalöndum sem kallast tordýfill (Geotrupes stercorarius (Linnaeus, 1758)). Heitið tordýfill var hins vegar misskilin nafngift og talið samsett á þann veg að tor- væri skeytt fyrir framan dýfil, þ.e. tor-dýfill. Hið rétta er hins vegar að samsetningin er tord-ýfill, þar sem tord eða torð merkir skítur og ýfill er samstofna t.d. enska orðinu weevil og merkir ranabjalla á þeirri tungu. Taðýfill er því málfarslega réttara heiti en taðdýfill.

Taðýfill er auðþekkt bjalla, svört á lit með áberandi rauða skjaldvængi. Hún hefur ávalan jafnbreiðan bol og öfluga graffætur til að grafa sig með inn í skítinn. Engin tegund önnur hér á landi líkist henni. Lirfan er gráhvít og skín dekkra innihald meltingarvegs gjarnan í gegn. Hún hefur stóran rauðbrúnan haus og krepptan þykkan afturenda.

Svo virðist sem taðýflarnir skríði inn í skítinn neðan frá. Auðveldast er að finna tegundina með því að skoða skít sem er orðinn stökkur á ytra borði, kanna hvort á neðra borði hans séu gangar eftir bjöllur og brjóta skítinn í sundur til að kanna innviðina. Þar má jafnan finna bjöllur á miðju sumri og lirfur e.t.v. nokkru síðar í öllu þroskaðri skít.

Taðýfill (Agoliinus lapponum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Taðýfill (Agoliinus lapponum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans.

Fauna Europaea. Agoliinus lapponum. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=99565 [skoðað 4.10.2012]

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |