Brunnklukkuætt (Dytiscidae)

Almennt

Talið er að í heiminum finnist um 4.000 tegundir brunnklukkuættar en margt er þar enn ókannað. Fræðiheitið er komið úr grísku, dytikos (getur kafað). Bjöllurnar eru af ýmsum stærðum, frá örfáum mm, margar þó tiltölulega stórar, jafnvel mjög stórar (allt að 45 mm). Þær eru allar ámóta í forminu,  lögun sem hentar vel lífi undir vatnsborði. Líkjast þunnri kaffibaun með mjúkum línum og dráttum, flatan kvið og hvelft bak. Línur samfelldar frá höfði aftur um hálsskjöld og skjaldvængi án misfella. Öll mótstaða er lágmörkuð til að smjúga vel í vatni og hafa góða stjórn á staðsetningunni í vatninu. Flestar eru svartleitar, dökkbrúnar, líkar dökkum ólífum, sumar mattar aðrar glansandi. Fálmarar eru þráðlaga og örfínir. Kjálkar eru stuttir en sterkir bitkjálkar. Bjöllurnar eru rándýr sem bíta bráðina og sprauta í hana meltingarensímum til að sjúga úr henni uppleystan vessa. Fremri fótapörin tvö fíngerð, staðsett framarlega og gagnast til að skríða um á vatnsbotni eða í vatnagróðri, aftasta parið staðsett miklu aftar, stórir sterkir áralaga fætur aðlagaðir til sunds. Margar hafa þroskaða flugvængi til að berast milli vatna. Þó bjöllurnar dvelji flestum stundum undir vatnsborði á anda þær að sér lofti gegnum loftop. Þær sækja sér reglulega loft upp að vatnsborði og geyma birgðir þess undir skjaldvængjum. Lirfurnar eru annáluð rándýr í vatni, hafa flatt kassalaga höfuð með sterkum bitkjálkum, bolur langur og endar í mjóum hala með tveim skottum. Þær hafa kallast vatnskettir frá fornu fari.

Í íslenskum tjörnum og vötnum finnast fimm tegundir brunnklukkuættar, tvær algengar, ein heldur fátíðari og tvær fágætar og staðbundnar. Ónefndar eru ógreindar tegundir sem slæðst hafa til landsins með saltförmum frá fjarlægum löndum.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |