Leðursmiður (Carabus coriaceus)

Leðursmiður - Carabus coriaceus
Mynd: Erling Ólafsson
Leðursmiður. 35 mm. ©EÓ
Leðursmiður - Carabus coriaceus
Mynd: Erling Ólafsson
Leðursmiður, höfuð með ógnvekjandi munnlimum. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa og Austurlönd nær. Víða í Evrópu; Norðurlönd, með ströndum til miðbiks Noregs en ekki í Finnlandi, suður til Miðjarðarhafs en ekki á Bretlandseyjum eða Íberíuskaga.

Ísland: Tilfallandi slæðingur í Reykjavík og á Blönduósi.

Lífshættir

Á Norðurlöndum finnst leðursmiður einna helst í skógum með sjávarströndum, á hæfilega raklendum skógarbotnum með ríkulegu lagi rotnandi plöntuleifa. Hann heldur til jafnt í laufskógum sem barrskógum. Nýklaktar bjöllur koma fram síðsumars og æxlast í ágúst til september. Margar fullorðnar bjöllur liggja í vetrardvala og fara á kreik á vorin en taka sér svo aðra hvíld fyrrihluta sumars. Lirfur leggjast einnig í vetrardvala en þroski þeirra og uppvöxtur kann að taka tvö til þrjú ár á norðlægari slóðum tegundarinnar. Leðursmiður er öflugt rándýr á skógarbotnum.

Almennt

Leðursmiður er einungis tilfallandi gestur hér á landi og litlar líkur eru til þess að hann setjist hér að í bráð. Aðeins fjögur tilfelli eru skráð og tengjast þrjú þeirra innflutningi á jólatrjám eða greni. Allir bárust smiðirnir lifandi til landsins. Sá fyrsti fannst í Reykjavík í desember 1985 og hafði hann borist með dönskum jólatrjám. Svipað var uppi á teningum jólin 1991 en þá fannst sá næsti sem einnig barst með dönskum jólatrjám. Sá þriðji fannst síðan á Blönduósi í desember 2005 og tengdist hann innfluttum grenigreinum. Síðast fannst leðursmiður í september 2006 í verksmiðju Ölgerðar Egils Skallagrímssonar í Reykjavík.

Leðursmiður er einkar stór og öflug bjalla, sú stærsta sinnar ættar sem borist hefur hingað til lands. Hann er auðþekktur bara af stærðinni. Leðursmiður er einlitur dökkur með bláleitri áferð og mattur. Yfirborð skjaldvængja líkist einna helst áferð á grófu leðri. Munnlimir eru mjög kraftmiklir svo hér er án efa um að ræða ógnvald mikinn í heimi smádýra í skógarbotnum.

Leðursmiður (Carabus coriaceus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Leðursmiður (Carabus coriaceus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fauna Europaea. Carabus coriaceus. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=387197 [skoðað 1.8.2012]

Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 15, part 1. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn. 225 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |