Grefilsmiður (Clivina fossor)

Grefilsmiður - Clivina fossor
Mynd: Erling Ólafsson
Grefilsmiður. 5,5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, Austurlönd nær og fjær, N-Afríka og innfluttur til N-Ameríku.

Ísland: Fágætur á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavík, Hafnarfjörður.

Lífshættir

Grefilsmiður finnst við margháttaðar aðstæður en kýs frekar rakan jarðveg og ekki sendinn, ýmist þéttvaxinn grassvörð eða opnari. Hann er vel fleygur og erlendis finnst hann stundum í reka á sjávarströndum. Annars grefur hann sig yfirleitt í holur í jarðvegi eða inn undir steina að degi til. Hann nærist bæði á dýra- eða plöntukyns fæðu. Hann er á ferli fyrripart sumars og er fáséður síðsumars.

Almennt

Grefilsmiður er að öllum líkindum nýlegur landnemi hér á landi. Hann fannst fyrst við botn Fossvogs í Reykjavík 30. apríl 2007. Síðan fannst hann í nágrenni Ástjarnar í Hafnarfirði 27. júlí 2010 og í þriðja sinn í Grasagarði Reykjavíkur 12. maí 2013. Hann kann að vera tíðari en þessi upptalning gefur til kynna því hann fer yfirleitt leynt að degi til og heldur sig í holum sínum í jarðveginum. Smiðurinn gæti hafa borist hingað með innfluttum jarðvegi í blómapottum þar sem hann hefur leitað skjóls í moldinni.

Grefilsmiður er nokkuð óvenjuleg smiðsbjalla að sköpulagi. Hann er með minni tegundunum og vel aðlagaður því að grafa sig niður. Bolurinn  er grannur, staflaga, fætur tiltölulega stuttir og langliður framfóta með sterklegum hökum til að beita við gröftinn. Frambolur er áberandi mjór á milli fyrsta og annars liðar og er hálsskjöldur vel aðgreindur frá skjaldvængjum, nánast eins og um sé að ræða mitti á röngum stað, en raunverulegt mitti er á mótum frambols og afturbols.

Grefilsmiður (Clivina fossor) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Grefilsmiður (Clivina fossor) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fauna Europaea. Clivina fossor. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=385557 [skoðað 31.10.2013]

Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 15, part 1: 1–226. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |