Randasmiður (Dicheirotrichus cognatus)

Randasmiður - Dicheirotrichus cognatus
Mynd: Erling Ólafsson
Randasmiður. 4 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel. N-Evrópa suður til Þýskalands, Tékklands og Slóvakíu, norðanverð Síbería og N-Ameríka, Grænland.

Ísland: Láglendi um land allt, á einum stað á miðhálendinu, þ.e. í Þóristungum við Tungnaá. Einnig sagður fundin í Arnarfelli hinu mikla undir Hofsjökli en nýlegri rannsóknir þar staðfestu það ekki.

Lífshættir

Finnst í margskonar gróðurlendum, ekki síst í mólendi og moslendi, bæði þurru og raklendu, gjarnan þar sem er nokkuð sendið og gróðurhula rofin. Ríkulegur grasvöxtur og þéttvaxin blómlendi hentar randasmið síður. Fullorðnar bjöllur eru á ferðinni frá vori til hausts, allt frá miðjum apríl og til loka október. Talið er að litlar lirfur brúi veturinn auk fullorðinna bjallna. Ef til vill er randasmiður á ferli allt árið þegar aðstæður leyfa. Í M-Evrópu er æxlun talin eiga sér stað á veturna. Hann veiðir minni smádýr sér til framfæris.

Almennt

Randasmiður er algengur í villtri náttúru á láglendi en sést sjaldnar í manngerðu umhverfi, húsagörðum og þess háttar. Það er athyglisvert að randasmiður hefur borist til Surtseyjar og sest þar að. Óvíst er hvernig hann barst þangað en fleygur er hann í öllu falli. Þó randasmiður sé algengur ber lítið á honum enda er hann með minni tegundum smiða og fer huldu höfði undir steinum og í mosa. Hann er auðþekktur á lit, svart höfuð og hálsskjöldur, nema afturrönd hans, brúnleit, skjaldvængir brúnleitir framan til, svartir aftan til, afgerandi brúnleit mjó rönd aftur með skilum skjaldvængjanna. Fætur og fálmarar dökkir nema fyrsti liður fálmara brúnleitur.

Randasmiður (Dicheirotrichus cognatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Randasmiður (Dicheirotrichus cognatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Erling Ólafsson & María Ingimarsdóttir 2009. The land-invertebrate fauna on Surtsey during 2002–2006. Surtsey Research 12: 113–128.

Fauna Europaea. Dicheirotrichus cognatus. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=379583 [skoðað 1.8.2012]

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 15, part 1. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn. 225 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |