Skógarsmiður (Leistus terminatus)

Skógarsmiður - Leistus terminatus
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarsmiður. 7 mn. ©EÓ

Útbreiðsla

N- og Mið-Evrópa, norður að heimskautsbaug, austur eftir Síberíu til Kyrrahafs.

Ísland: Suðvesturland; Reykjavík, Kópavogur, Kollafjörður.

Lífshættir

Kjörlendi hefur skógarsmiður fundið sér á skuggsælum skógarbotnum innan um rotnandi lauf og barr. Hann er rakasækinn og leitar skjóls undir trjálurkum, steinum og öðru lauslegu á skógarbotninum. Leitar gjarnan að lækjasytrum sem falla um trjálundi. Finnst einnig í húsagörðum. Á Norðurlöndum kemur skógasmiður ekki fram fyrr en í lok júní. Sama gæti verið uppi á teningnum hér á landi en sá fyrsti á ferðinni fannst viku af júlí. Á haustin safnast skógarsmiðir saman í miklum fjölda og fer æxlun þá fram. Slík samkunda skógarsmiða hefur vitnast hér um miðjan nóvember. Ekki er vitað hve lengi fullorðnu bjöllurnar endast fram eftir hausti en sennilega lifa fáar þeirra af veturinn.

Almennt

Skógarsmiður hefur sennilega borist til landsins eftir miðja 20. öld og gæti vel hafa tekið sér far með rótarhnausum á innfluttum trjám. Hann fannst fyrst í byrjun september 1969 í Reykjavík, nánar tiltekið í Skógræktarstöðinni í Fossvogi. Hann finnst þar aftur í tvígang á komandi árum og síðan í húsagarði í Kópavogi, skammt ofan við skógræktina í lok aldarinnar (1997). Síðan finnst tegundin í fleiri görðum á svipuðum slóðum í Fossvogsdal, í báðum sveitarfélögunum, Reykjavík og Kópavogi. Haustið 2009 finnst skógarsmiður fyrst utan Fossvogsdals, en það var í trjárækt Skógræktar ríkisins við Mógilsá í Kollafirði. Tveim árum seinna sást þar mikill fjöldi á sama stað.

Það er ljóst að hérlendis á eftir að þróast sérstök fána smádýra í tengslum við skógrækt, en skilyrði í skógarbotnum, einkum þar sem barrtré eru ræktuð og hávaxin lauftré, eru afar frábrugðin þeim sem eru í boði íslenskrar náttúru. Rannsóknaverkefnið Skógvist sem var í gangi um nokkurra ára skeið eftir aldamótin síðustu sýndi fram á það, en þar kom fram að samsetning smádýrafánu í gömlum lundum barrtrjáa var einstök. Á komandi árum munu eflaust berast til landsins nýjar tegundir sem finna lífsskilyrði, hvort heldur sem er á skógarbotnum eða trjánum sjálfum, útvortis sem innvortis. Skógarsmiður er þáttur í þessari þróun smádýrasamfélagsins.

Skógarsmiður er auðþekktur frá ættingjum sínum smiðsættar. Miðað við ættingjana er hann meðalstór. Hann er rauðbrúnn á lit með svartan haus, skjaldvængir dökkna til endanna, fálmarar og fætur gulleitir. Skógarsmiður er frár á fæti og leitar snarlega í felur hafi hann orðið berskjaldaður.

Skógarsmiður (Leistus terminatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Skógarsmiður (Leistus terminatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & María Ingimarsdóttir 2007. Áhrif skógræktar á samfélög smádýra. Fræðaþing landbúnaðarins 4: 430–435.

Ground beetles of Ireland. Leistus terminatus. http://www.habitas.org.uk/groundbeetles/species.asp?item=7148 [skoðað 8.12.2011]

Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 15, part 1. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn. 225 bls.

Wikipedia. Leistus terminatus. http://no.wikipedia.org/wiki/Leistus_terminatus [skoðað 8.12.2011]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |