Glitsmiður (Notiophilus biguttatus)

Glitsmiður - Notiophilus biguttatus
Mynd: Erling Ólafsson
Glitsmiður, 5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, einkum þó M- og N-Evrópa nema nyrst í Skandinavíu, austur til Kákasusfjalla; Hjaltlandseyjar, Færeyjar. Innfluttur til Nýfundnalands í N-Ameríku.

Ísland: Útbreiddur um land allt, miklu algengari á sunnanverðu landinu en norðanlands og á miðhálendinu einkum við jarðhita.

Lífshættir

Glitsmiður finnst einkum á þurri, en einnig raklendri, sendinni og grýttri jörð með opnum gróðri. Bæði bjöllur og lirfur nærast á öðrum smádýrum. Æxlun og uppvöxtur lirfa fer fram að vori og fram á mitt sumar. Á miðju sumri og síðar lítur ný kynslóð bjallna dagsins ljós. Fullorðnar bjöllur hafa sést á ferli á tímabilinu frá snemma í apríl til seinni hluta október. Nýja kynslóðin leggst í vetrardvala. Dæmi er um glitsmið sem vaknaði til lífsins í lok desember eftir að hafa slæðst inn í hús með blómapotti.

Almennt

Glitsmið vegnar betur sunnanlands en á landinu norðanverðu en hann er mjög algengur á Suðurlandi, einkum í strandhéruðum. Hann á erfitt uppdráttar á miðhálendinu og finnst þar einna helst við jarðhita, t.d. í Þjórsárverum. Hann er gott dæmi um tegund sem getur komist af við harðneskjuleg skilyrði njóti jarðhita við. Glitsmiðirnir hafa oftast stutta vængi og eru þá ófleygir. Einnig eru þekkt eintök með vængi sem duga til flugs. Við rannsóknir í Surtsey sumarið 2002 kom í ljós að glitsmiður hafði borist til eyjarinnar og fest sig þar í sessi. Þar má sjá hann skjótast um berar hraunklappir en glitsmiðir eru gjarnan á ferðinni á sólríkum dögum.

Glitsmiður er smávaxinn smiður, ólíkur flestum öðrum tegundum í formi, með froskslegt höfuð og útstæð hvelfd augu. Hann er gljáandi, oftast með bronsleitri áferð, og glittir fagurlega á hann í sólskini.

Glitsmiður (Notiophilus biguttatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Glitsmiður (Notiophilus biguttatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólfsson 2000. Landliðdýr í Þjórsárverum. Rannsóknir 1972–1973. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 40. 159 bls.

Erling Ólafsson & María Ingimarsdóttir 2009. The land-invertebrate fauna on Surtsey during 2002–2006. Surtsey Research 12: 113–128.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 15, part 1. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn. 225 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |