Garðasmiður (Patrobus atrorufus)

Garðamiður - Patrobus atrorufus
Mynd: Erling Ólafsson
Garðasmiður. 8 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa nema allra nyrst og syðst, austur um Síberíu til Kákasus.

Ísland: Suðurland frá Reykjanesskaga austur í Hornafjörð, einnig Reykholt og Hvanneyri í Borgarfirði.

Lífshættir

Í nágrannalöndunum eru raklendir skógarbotnar kjörlendi garðasmiðs. Það á ágætlega við hérlendis þar sem hann finnst hér einna helst í húsagörðum og ræktuðum trjálundum. Hann er rakasækinn, leitar gjarnan í rakann í rotnandi plöntuleifum, laufbingjum og safnhaugum, undir hellur og steina og annað lauslegt í blómabeðum o.s.frv. Bjöllurnar eru á ferli frá vori til hausts en æxlun á sér stað síðsumars og leggjast lirfur í vetrardvala ásamt einhverjum fullorðnum bjöllum sem kunna að birtast á veturna í hlákutíð. Garðasmiður er rándýr sem veiðir að nóttu til jafnt á lirfu- sem fullorðinsstigi.

Almennt

Garðasmiður hefur að öllum líkindum borist til landsins með mönnum á einhverju tímaskeiði. Hann fannst þó með vissu á fyrri hluta síðustu aldar. Útbreiðsla hans hér er alfarið bundin Suðurlandi og Borgarfirði á Vesturlandi. Hún kann að vera slitrótt, háð kjörlendi og flutningi með mönnum á milli staða. Hann er þó mjög algengur á mörgum stöðum, t.d. í húsagörðum á höfuðborgarsvæðinu.

Garðasmiður líkist járnsmið (Nebria rufescens) að vissu marki og er því gjarnan ruglað saman við hann. Hlutföllin eru þó nokkuð ólík, t.d. er garðasmiður mun fótastyttri en járnsmiður. Garðasmiður er einlitur svartur, vel gljáandi, en fætur rauðleitir. Fjallasmiður (Patrobus septentrionis) er hans nánasti ættingi og eru þeir nauðalíkir í útliti. Fjallasmiður er þó ívið stærri og mattari á skel. Auðveldast er að greina þá að með því að lyfta skjaldvængjum, en undir þeim leynast flugvængir á fjallasmið en garðasmiður er án slíkra.

Garðasmiður (Patrobus atrorufus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Garðasmiður (Patrobus atrorufus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Ground Beetles of Ireland. Patrobus atrorufus. http://www.habitas.org.uk/groundbeetles/species.asp?item=7188 [skoðað 27.6.2012]

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 15, part 1: 1–226. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |