Tröllasmiður (Carabus problematicus)

Útbreiðsla

Skandinavía, Kólaskagi, Skotland og Færeyjar.

Ísland: Staðbundinn í Nesjum í Hornafirði, frá Hoffelli suður og austur fyrir Almannaskarð.

Lífshættir

Búsvæði tröllasmiðs er í gras- og mólendi og grýttu landi með rótum fjalla og út frá þeim eftir því sem best er vitað. Hann leynist að mestu undir steinum að degi til og fer á stjá á nóttinni. Þá veiðir hann önnur smádýr af ýmsu tagi, m.a. snigla.

Almennt

Tröllasmiður er eitt stærsta skordýrið á landinu og er talinn hafa lifað hér frá fornu fari. Niðurstöður rannsókna sýndu að íslenski tröllasmiðurinn sé það frábrugðinn tröllasmiðum í nágrannalöndum okkar að hann verðskuldaði að vera skilgreindur sem sérstök undirtegund (C. p. islandicus). Tröllasmiður er Hornfirðingum vel kunnur og hefur löngum gengið undir heitinu tordýflamóðir þar í sveit. Ekki er vitað hversu gamalt heitið er en elstu menn í sveitinni ólust upp við það. Í Skaftafellssýslunni er tordýfill staðbundið heiti á járnsmið (Nebria rufescens) sem er náinn ættingi, áþekkur að sköpulagi en miklu minni. Það skýrir tilvísunina til móður hans.

Tröllasmiður er líkur varmasmið, ívið minni og bæði mynstur í skjaldvængjum og litaáferð frábrugðið.

Útbreiðslukort

Heimildir

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Lindroth, C.H. 1968. The Icelandic form of Carabus problematicus Herbst (Col. Carabidae) A statistic treatment of subspecies. Opusc. ent. 33: 157–182.

Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna entomologica scandinavica 15, part 1. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn. 225 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, uppfært 13. mars 2013.

Biota

Tegund (Species)
Tröllasmiður (Carabus problematicus)