Vespubukkur (Clytus arietis)

Vespubukkur - Clytus arietis
Mynd: Erling Ólafsson
Vespubukkur. 10 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa frá Miðjarðarhafslöndum norður til sunnanverðrar Skandinavíu og SV-Finnlands, austur til Kákasus, Armeníu og N-Írans; hefur slæðst til Færeyja.

Ísland: Fágætur slæðingur á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavík, Kópavogur.

Lífshættir

Vespubukkur finnst einna helst í trjálundum úti í haga, í trjáröðum í jöðrum akra og annars staðar þar sem lauftré vaxa í tiltölulega opnu landi með blómgróðri. Bjöllurnar sækjast þar gjarnan eftir frjókornum og blómasafa í hvítum blómum af ýmsum tegundum á tímabilinu frá lokum maí til loka júlí.

Lirfurnar alast upp í dauðum greinum og bolum lauftrjáa af ýmsum tegundum, ekki síst í eikum (Quercus). Girðingastaurar úr eik voru algengar uppeldisstöðvar fyrrum eða þar til gegnvarinn viður náði yfirhöndinni. Lirfur finnast einnig í dauðum greinum lifandi trjáa, t.d. selju (Salix caprea), beyki (Fagus sylvestica), birki (Betula), álmi (Alnus), ávaxtatrjáa (Malus, Pyrus) og ýmissa annarra tegunda. Einnig eru þekkt tilfelli úr eini (Juniperus communis) og rauðgreni (Picea abies). Það er því ljóst að vespubukki verður seint úthýst. Lirfurnar halda sig til að byrja með undir berki en éta sig síðan dýpra inn í viðinn. Þær kjósa helst þéttan við án rotsveppa. Stundum er eggjum orpið á barklausan við og húsgögn geta einnig sýkst af völdum tegundarinnar. Uppvöxturinn tekur tvö ár við eðlilegar aðstæður, en allt að þrjú til fjögur ár ef viðurinn er óheppilegur. Oftast púpa lirfur sig á vorin en það getur einnig átt sér stað á haustin og þá bíða púpur þess að klekjast að vetri loknum.

Almennt

Vespubukkur er mjög sjaldgæfur slæðingur hér á landi. Þrjú tilvik hafa verið skráð, öll að vetri til þegar fullorðnar bjöllur ættu í raun ekki að vera á ferli. Sennilega er um að ræða bjöllur sem lent hafa í pakkningum. Annars gefa kringumstæður litlar vísbendingar um flutningsleiðir hingað. Fyrsta skráða tilvikið er frá miðjum janúar 1982 á heimili í Reykjavík. Það næsta barst með sendingu til ÁTVR í Reykjavík í miðjum febrúar 1991 og það síðasta fannst á heimili í Kópavogi um miðjan nóvember 2003.

Vespubukkur er falleg bjalla með áhugavert atferli. Hann er svartur með einkennandi gulhærðum beltum bæði fremst og aftast á hálsskildi og þvert yfir skjaldvængi. Á belti um miðbik skjaldvængja dragast snertiendarnir í miðju fram á við. Fálmarar eru stuttir miðað við fálmara trjábukka en fætur langir, einkum afturfætur. Með litmynstri sínu líkist vespubukkur geitungum og er það hans vörn. Hann lætur litinn einan og sér ekki duga, því hann hefur auk þess tileinkað sér hreyfingar geitunga og jafnvel suð þeirra þegar hann er áreittur.

Vespubukkur (Clytus arietis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Vespubukkur (Clytus arietis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Ehnström, B. 2007. Skalbaggar: Långhorningar. Coleoptera: Cerambycidae. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Svenska artprojektet, Artdatabanken, Uppsala. 302 bls.

Jensen, J.-K., vefsíða. http://www.jenskjeld.info/DK_side/indexdk.htm [skoðað 2.11.2011]

Wikipedia. Clytus arietis. http://en.wikipedia.org/wiki/Clytus_arietis [skoðað 2.11.2011]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |