Flikrudepla (Coccinella undecimpunctata)

Flikrudepla - Coccinella undecimpunctata
Mynd: Erling Ólafsson
Flikrudepla. 4 mm. ©EÓ
Flikrudepla - Coccinella undecimpunctata
Mynd: Erling Ólafsson
Flikrudepla. 4 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa, Austurlönd nær og N-Afríka. Innflutt til Ástralíu og Nýja-Sjálands.

Ísland: Land allt, láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Flikrudepla lifir hvarvetna þar sem blaðlýs er að finna. Bæði fullorðnar bjöllur og lirfur nærast á blaðlúsum af hvaða tegund sem er og því er flikrudeplan óbundin gróðurlendum. Hún finnst þó mjög gjarnan í þurru og opnu graslendi eða valllendi með ívafi blómplantna, einnig í kjarrlendi og húsagörðum. Að öllum líkindum liggur fullorðna bjallan vetrardvalann. Hún er á ferli frá miðjum maí fram í miðjan september. Lirfur finnast einna helst í júlí og ágúst og eru bjöllur á ferli síðsumars væntanlega af haustkynslóð sem leggst í dvala.

Almennt

Hérlendis er flikrudepla hin eina sanna maríubjalla eða maríuhæna, eins og margir kalla hana. Hún er útbreidd um land allt en er þó fjarri því mjög áberandi. Hún er sólkær og sést því helst á sólríkum sumardögum og flýgur þá gjarnan um. Nokkur áraskipti eru af henni. Stundum hefur heyrst vitnað til sumars á miðjum sjötta áratug síðustu aldar þegar bjöllurnar voru einstaklega áberandi. Sá sem þennan texta skrifar man það sumar, þá barnungur.

Líkt og sjödepla (Coccinella septempunctata), sem er öllu stærri, þykir flikrudepla máttug við að halda blaðlúsum í skefjum. Tilraunir hafa verið gerðar með hana sem að því lúta og var hún t.d. flutt til Eyjaálfu í því skini að hemja blaðlýs í ræktun nytjaplantna.

Flikrudepla er dæmigerð maríubjalla, þ.e. kúptir skjaldvængirnir rauðir með svörtum deplum. Tegundir maríubjallna verða gjarnan greindar af fjölda deplanna. Venjuleg flikrudepla í Evrópu hefur 11 litla depla (sbr. fræðiheitið undecimpunctata), fimm á hvorum skjaldvæng og einn miðlægan fremst á skilum vængjanna. Slíkar hafa borist til landsins með varningi að vetrarlagi. Íslenskar flikrudeplur eru þó ekki þannig. Deplarnir eru miklu stærri, svo stórir að fjórir þeir öftustu hafa runnið saman í tvo stóra svarta flekki. En að grunni til eru deplarnir ellefu. Þetta litarafbrigði fyrirfinnst einnig í N-Noregi. Aukið dökkt yfirborð stuðlar að meiri hitun frá sólargeislum en slíkt kemur fyrir hjá mörgum tegundum skordýra með útbreiðslu norður í kuldann. Líkast til má því rekja uppruna íslenskra flikrudepla til norskra landnámsmanna.

Fyrir utan rauðu skjaldvængina er flikrudepla svört á lit; haus, hálsskjöldur og fætur. Framhorn hálsskjaldar eru þó hvít og tveir hvítir dílar á haus. Lirfan er auðþekkt, ljós að grunni til, vel afmarkað höfuð, þrír fyrirferðarmiklir frambolsliðir með tiltölulega löngum fótum taka allt að hálfa bollengdina, níu afturbolsliðir styttri og mjókka aftur. Á hverjum er röð þvert yfir af dökkum hnúðum hver með mörgum bursthárum.

Flikrudepla (Coccinella undecimpunctata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Flikrudepla (Coccinella undecimpunctata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Cabral, S., A.O. Soares & P. Garcia 2009. Predation by Coccinella undecimpunctata L. (Coleoptera: Coccinellidae) on Myzus persicae Sulzer (Homoptera: Aphididae): Effect of prey density. Biologocal Control 50: 25–29.

El-Gawad, H.A.S. Abd & A.A.A. El-Zoghbey 2009. Use of Coccinella undecimpunctata L. For controlling Aphis gossypii Glover and Myzus persicae (Sulzer) on cucumber in Egypt. Ecypt. Acad. J. Biolog. Sci. 2: 81–85.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Wikipedia. Cocconella undecimpunctata. http://en.wikipedia.org/wiki/Coccinella_undecimpunctata [skoðað 6.6.2012]

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |