Silfurrani (Barynotus squamosus)

Silfurrani - Barynotus squamosus
Mynd: Erling Ólafsson
Silfurrani. 10 mm. ©EÓ
Silfurrani - Barynotus squamosus
Mynd: Erling Ólafsson
Silfurrani. 10 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

NV-Evrópa, frá Pýreneafjöllum norður með ströndum Atlantshafs til N-Noregs, einnig Svíþjóð en nær ekki austur til Finnlands; Færeyjar, austurströnd N-Ameríku (e.t.v. innfluttur frá Evrópu).

Ísland: Láglendi um land allt, algengur á sunnanverðu landinu, sjaldgæfur á Norðurlandi.

Lífshættir

Kjörlendi silfurrana er í hæfilega rökum gróskumiklum gróðurlendum ekki síst í strandhéruðum. Bjöllurnar eru á ferli á nóttinni og naga laufblöð fjölmargra plöntutegunda. Hvítsmári (Trifolium repens) nýtur vinsælda. Lirfurnar eru í jörð og éta rætur. Bjöllur hafa fundist allt frá um miðjum mars og fram eftir október. Silfurrani er þó algengastur um miðbik sumars. Hann liggur vetrardvalann bæði á fullorðins- og lirfustigi. Á norðlægum slóðum finnast eingöngu kvendýr og fer æxlun því fram án þess að karlkyn komi þar nærri. Sunnar, t.d. í Frakklandi, eru karldýr hins vegar algeng. Þó silfurrani athafni sig fyrst og fremst á nóttinni má oft sjá bjöllurnar að degi til, t.d. skríðandi neðan til á húsveggjum upp frá grasrót.

Almennt

Silfurrani er hafræn tegund sem lifir einkum þar sem hafrænna áhrifa gætir jafnt erlendis beggja vegna Atlantsála og hér á landi. Hann nýtur sín því einkar vel á Suðurlandi á meðan honum þykir Norðurland óspennandi. Silfurrani er auðþekktur á silfurgráum skjaldvængjunum auk þess að vera með stærri ranabjöllum hér á landi. Raninn er breiður.

Silfurrani (Barynotus squamosus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Silfurrani (Barynotus squamosus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |