Gljárani (Barypeithes pellucidus)

Gljárani - Barypeithes pellucidus
Mynd: Erling Ólafsson
Gljárani. 3,5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa austur til Moskvu, ófundinn í einhverjum Miðjarðarhafslanda. Innfluttur til N-Ameríku.

Ísland: Suðvesturland; Reykjavík, Garðabær, Akranes og Hveragerði; einnig Akureyri.

Lífshættir

Hérlendis lifir gljárani eingöngu í húsagörðum. Í nágrannalöndunum er hann sömuleiðis algengur í húsa- og skrúðgörðum en finnst einnig í skógum og skógarjöðrum, í runnagróðri og graslendi, algengastur á frjósömum moldarjarðvegi. Á austanverðu útbreiðslusvæðinu finnst gljárani fyrst og fremst í manngerðu umhverfi. Gljárani hefur fundist hér frá um miðjum júní fram í byrjun október, en fjöldinn er mestur í júlí. Hann lifir á fjölda plöntutegunda. Fullorðnar bjöllur naga laufblöð, ber og trjábörk og geta valdið skaða. Þær eru sólgnar í jarðarber og skaðvaldar á þeim. Lirfurnar eru í jarðvegi og nærast á rótum, t.d. á smárategundum. Þær púpa sig í spunahýði í jarðveginum og liggja sennilega vetrardvalann á því þroskastigi.

Almennt

Gljárani hefur sennilega borist hingað á seinnihluta 20. aldar og numið land í görðum á höfuðborgarsvæðinu. Hann varð fyrst staðfestur í Reykjavík 1980. Honum fjölgaði hratt og finnst nú oft í miklum fjölda í gróskumiklum húsagörðum. Á rökum góðviðriskvöldum má stundum sjá hersingar bjallna skríða upp úr gróðri upp eftir húsveggjum. Þó gljárana hafi vegnað vel hefur hann ekki beiðst hratt út frá höfuðborginni. Það er rétt á seinni árum sem tilfelli hafa komið upp á nýjum stöðum; Hveragerði og Akureyri 2007 og Akranes 2010. Hann berst væntanlega til nýrra staða með gróðri og gróðurvörum.

Svo er að skilja að gljárani sé almennt í útbreiðsluaukningu í N-Evrópu, þar sem hans fór fyrst að verða vart á fyrrihluta síðustu aldar. Einnig hefur hann borist af manna völdum vestur yfir Atlantsála til N-Ameríku.

Skaðsemi af völdum gljárana hefur enn ekki verið staðfest hér á landi, en e.t.v. gæti hann helst skaðað jarðarberjaplöntur í ræktun undir plasti. Gljárani berst stundum inn í hús í umtalsverðum fjölda. Þar sem umgengni er lítil safnast dauðar bjöllur stundum fyrir haugum, t.d. í kjöllurum, og kveikja áhyggjur hjá húseigendum.

Gljárani er mun minni en flestar aðrar ranabjöllur í görðum okkar. Hann hefur frekar þunna og gegnsæja skel (sbr. fræðiheitið pellucidus) með gjáandi, langhærðu yfirborði, holupunktum á hálsskildi og punktaröðum langsum eftir skjaldvængjum. Hann er nokkuð breytilegur á lit, ljósbrúnn, rauðbrúnn, dökkbrúnn, með ljósari rauðbrúna fálmara og fætur.

Gljárani (Barypeithes pellucidus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Gljárani (Barypeithes pellucidus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks Dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |