Eyjarani (Ceutorhynchus insularis)

Eyjarani - Ceutorhynchus insularis
Mynd: Erling Ólafsson

Eyjarani (Ceutorhynchus insularis). 2,5 mm. ©EÓ

Eyjarani - Ceutorhynchus insularis
Mynd: Erling Ólafsson

Eyjarani á skarfakálsblaði með augljósum ummerkjum eftir lirfur. ©EÓ

Útbreiðsla

Ísland og Skotland (St. Kilda).

Ísland: Vestmannaeyjar (Suðurey, Elliðaey, Surtsey) og Ingólfshöfði.

Lífshættir

Eyjarani finnst eingöngu við sjó þar sem hann lifir alfarið á skarfakáli (Cochlearia officinalis). Lirfurnar vaxa upp inni í þykkum blöðum skarfakálsins og mynda ganga sem sjást greinilega á yfirborðinu sem óreglulegir og stefnulausir fölgulir taumar, flekkir og sár. Stundum sjást blöð með miklum ummerkjum. Lirfurnar virðast vaxa upp fyrri part sumars í ferskum laufblöðum. Sennilega púpa þær sig inni í laufblöðunum. Gjarnan má greina göt við enda tauma þar sem bjöllur hafa skriðið út. Þær halda sig helst niðri við rótarháls plöntunnar og eru ekki auðfundnar. Ekki er vitað á hvaða þroskastigi vetrardvali fer fram, hvort það er á fullorðinsstigi eða sem egg.

Almennt

Eyjarani er afar athyglisverð bjalla. Tegundin uppgötvaðist fyrst í Suðurey í Vestmannaeyjum árið 1968 í tengslum við rannsóknir Svíans Carls H. Lindroth og félaga á baklandi Surtseyjar sem þá var nýrisin úr sæ. Þessi agnarsmáa ranabjalla virtist fljótt á litið vera körturani (Ceutorhynchus minutus), sem var þekktur hér á landi en afar fágætur. Þó var útlitmunur nokkur, þ.e. merkjanlegur stærðarmunur og fætur gulleitir á bjöllunum frá Suðurey en ekki svartir eins og á dæmigerðum körturana. Það vakti grunsemdir og voru eintökin send þýskum sérfræðingi í ættkvíslinni Ceutorhynchus, L. Dieckmann, til skoðunar. Hann komst að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða nýja áður óþekkta tegund. Hann tók þá einnig til skoðunar og samanburðar samskonar eintök sem safnað hafði verið á eyjunni Dún í St. Kilda eyjaklasanum vestur af Skotlandi árið 1931. Hann komst að þeirri niðurstöðu að um sömu tegund og í Suðurey væri að ræða. Í kjölfarið lýsti hann tegundinni og gaf henni heitið C. insularis, sem var dregið af fundarstöðunum tveim, þ.e. smáeyjunum íslensku og skosku.

Ekki urðu allir fræðimenn á eitt sáttir um gildi þessarar tegundar með svo furðulega útbreiðslu og er svo í rauninni enn. Litningarannsóknir fara fram um þessar mundir í Bretlandi og liggja niðurstöður ekki fyrir enn.

Árið 2002 fór starfsmaður Náttúrufræðistofnunar, Guðbjörg Inga Aradóttir, á slóðir eyjaranans í Suðurey til að freista þess að hafa upp á honum aftur og bar leitin árangur. Skömmu síðar það sama sumar fannst eyjarani óvænt á skarfakáli í Surtsey. Og ekki er öll sagan þar með sögð, því hans var í kjölfarið leitað á skarfakáli í Ingólfshöfða í Öræfum og kom einnig í ljós þar. Upp frá þessu hefur eyjarani fundist árlega í Surtsey og reynst vera ein algengasta bjöllutegundin í eynni. Árið 2010 var hans svo leitað í Elliðaey í Vestmannaeyjum og fannst þar einnig. Það má því búast við að fundarstöðum eigi eftir að fjölga hér á landi og eflaust víðar, t.d. á skoskum eyjum þar sem skarfakál vex. Til að finna eyjarana þarf að leita mjög markvisst og vita hvernig skal bera sig að við leitina.

Árið 2005 var eyjarana aftur safnað á St. Kilda á tveim stöðum á eynni Hirta. Sýktum laufblöðum skarfakáls var safnað í byrjun júní og bjöllum klakið úr þeim til frekari rannsókna. Þær skiptust til helminga svartfættar annars vegar og með ljósari, þó misljósa, fætur hins vegar. Ekki reyndist stærðarmunur á eyjarana og körturana nú eins afgerandi og Dieckmann hafði gefið tilkynna út frá þeim fáu eintökum sem hann hafði til skoðunar. Hins vegar reyndust svartfættu eyjaranarnir frá Hirta minni en þeir gulfættu, en Dieckmann hafði aðeins tekið tillit til gulfættra bjallna í lýsingu sinni á tegundinni. Ekki greindist munur á kynfærum þessara tveggja tegunda eða stofna. Hins vegar reyndust eyjaranar vera með stutta vængi en körturanar langa og því fleygir. Raninn er langur, mjór, örlítið sveigður og beinist niður.

Eyjarani er grár á lit og stafar af honum bronslitum gljáa. Raninn er langur, mjór, örlítið sveigður og beinist niður. Íslenskir eyjaranar eru yfirgnæfandi gulfættir að meira eða minna leyti. Aðeins fáeinir með alsvarta fætur hafa fundist í Surtsey. Hins vegar eru eintökin fáu frá Ingólfshöfða svartfætt. Hvað stærð viðkemur eru eyjaranarnir okkar áberandi stærri en íslenskir körturanar. Eins og þeir skosku hafa þeir stutta vængi sem ekki ná aftur fyrir skjaldvængina og duga engan veginn til flugs. Vængir körturana hér hafa ekki verið skoðaðir.

Svo virðist sem hér sé alla vega um tvo aðskilda stofna að ræða, eyjarana og körturana. Körturani lifir á ýmsum tegundum krossblómaættar (Brassicaceae), en eyjarani hefur sérhæft sig á skarfakál sömu ættar. Alla vega má líta svo á að hér sé í fullum gangi tegundamyndun, ef í ljós kæmi að rannsóknir á erfðaefni dugi ekki til að skilgreina stofnana sem tvær aðskildar tegundir. Það telst þó varla mjög sannfærandi að sama tegund sé að myndast á tveim aðskildum eyjaklösum, því ólíklegt er að nokkur samgangur sé á milli eyjarana hérlendis og á St. Kilda. Því er réttlætanlegt að túlka þessi fyrirbæri, eyjarana og körturana, sem aðskildar tegundir, alla vega þar niðurstöður rannsókna á erfðaefni gefa annað til kynna.

Eyjarani (Ceutorhynchus insularis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Eyjarani (Ceutorhynchus insularis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Dieckmann, L. 1971. Ceutorhynchus-Studien (Coleoptera: Curculionidae). Beitr. Ent. 21: 581–595.

Erling Ólafsson & María Ingimarsdóttir 2009. The land-invertebrate fauna on Surtsey during 2002–2006. Surtsey Research 12: 113–128.

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963–1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Pitkin, B., W. Ellis, C. Plant & R. Edmunds 2011. The leaf and stem mines of British flies and other insects. http://www.ukflymines.co.uk/Beetles/Ceutorhynchus_insularis.html [skoðað 23.11.2011]

Robinson, J. & E.G. Hancock 2008. The morphology and colour polymorphism of the St Kildan weevil Ceutorhynchus insularis Dieckmann, 1971 (Coleoptera: Curculionidae). Ent. mon. Mag. 144: 211–216.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |