Víðirani (Dorytomus taeniatus)

Víðirani - Dorytomus taeniatus
Mynd: Erling Ólafsson
Víðirani. 5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa til nyrstu slóða og Síbería.

Ísland: Láglendi um land allt og Smjörtungufjall við Kárahnjúka.

Lífshættir

Kjörlendi víðirana er í víðimóum, kjarrlendi með víðirunnum (Salix) og plöntuðum skógarreitum með víði og öspum (Populus). Hann lifir á víðitegundum og hefur einnig verið safnað af alaskaösp (P. trichocarpa). Bjöllurnar naga þekjuvefi laufblaða sem detta út í gagnsæjum blettum af völdum þeirra en lirfurnar grafa sig inn í rekla og jafnvel laufblöð líka. Víðirani liggur vetrardvalann á fullorðinsstigi. Bjöllurnar fara að sjást upp úr miðjum apríl en flestar í maí og fram eftir júní, þegar víðir blómgast, feta þær sig upp í víðirunnana og út á nýskriðna rekla. Þar makast þær og kvendýrin verpa eggjum í reklana þar sem lirfurnar vaxa upp í göngum inni í kjarna. Þær ná fullum vexti á miðju sumri, falla þá til jarðar og púpa sig í jarðveginum. Bjöllur fara síðan að skríða úr púpum í ágúst og sjást allt fram í miðjan október.

Almennt

Víðirani er mun algengari á sunnanverðu landinu en fyrir norðan og á einum stað hefur hann fundist uppi í hálendisbrún í nágrenni Kárahnjúka. Annars fer hann ekki inn á hálendið. Hann Víðirani er smávaxin, hægfara ranabjalla, bolurinn tiltölulega langur, nær einlitur brúnn á lit. Raninn er mjór og áberandi langur boginn sem spóanef.

Víðirani (Dorytomus taeniatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Víðirani (Dorytomus taeniatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson & Erling Ólafsson 2002. Dulin veröld. Smádýr á Íslandi. Mál og Mynd, Reykjavík. 171.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |