Laufrani (Isochnus foliorum)

Laufrani - Isochnus foliorum
Mynd: Erling Ólafsson
Laufrani. 2 mm. ©EÓ
Laufrani - Isochnus foliorum
Mynd: Erling Ólafsson
Laufrani, lirfa nýskriðin úr hnúð. 5 mm. ©EÓ
Laufrani - Isochnus foliorum
Mynd: Erling Ólafsson
Laufrani, lirfa. 5 mm. ©EÓ
Laufrani - Isochnus foliorum
Mynd: Erling Ólafsson
Seljublöð alsett hnúðum sem hýsa lirfur laufrana. ©EÓ

Útbreiðsla

N-Evrópa og fjalllendi M-Evrópu og sennilega austur í Síberíu.

Ísland:Suðvestanvert landið frá Hafnarfirði austur að Dyrhólaey, einnig Heimaey.

Lífshættir

Kjörlendi laufrana eru víðimóar, einnig trjáræktir og húsagarðar með víðitegundum (Salix) og öspum (Populus). Bjöllurnar eru á ferli fyrrihluta sumars frá lokum maí til mánaðamóta júní/júlí. Þær verpa eggjum sínum á laufblöð ýmissa tegunda víðis og aspa. Hefur einnig fundist á eplatré (Malus). Lirfurnar smeygja sér inn í laufblöðin og éta innri vefi þeirra. Smám saman myndast afar áberandi uppblásnir en harðir hnúðar á laufblöðunum þar sem lirfur hafa athafnað sig. Kveður stundum svo rammt að þessum ummerkjum að blöðin verða alsett slíkum hnúðum. Úti í náttúrunni er vitað um grasvíði (S. herbacea) og gulvíði (S. phylicifolia) sem hýsilplöntur en í byggð hefur laufraninn fundist á alaskaösp (P. trichocarpa) og í ljós er að koma að selja (S. caprea) er einstaklega eftirsóknarverð. Í lok ágúst skríða lirfurnar út úr hnúðunum, skilja eftir sig gat, og síga á spunaþræði til jarðar þar sem þær púpa sig fyrir vetrardvalann.

Almennt

Laufrani fannst hér tiltölulega seint eða á 7. áratug síðustu aldar og þá í tengslum við rannsóknir á baklandi nýborinnar Surtseyjar, sem sagt undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og á Heimaey. Það var ekki fyrr en undir aldamótin að hann fór að finnast á Suðvesturlandi og þá í byggð. Í allra síðustu tíð hefur orðið sprengja í fjölgun og eru garðeigendur farnir að verða varir ummerkjanna síðsumars í auknum mæli. Segja má að sumarið 2011 hafi orðið þáttaskil. Hér er því mættur til leiks enn einn gróðurspillirinn í garða höfuðborgarbúa.

Laufrani er agnarsmá bjalla, grásvört með rauðgula langliði fóta, lítinn ljósan blett framan við skil skjaldvængja (á scutellum) og langan, mjóan rana sem beinist niður. Lirfan er lítil gul, fótalaus með brúnleitan haus. Stærð hennar er í litlu samræmi við stærð hnúðsins sem hún myndar á laufblaðinu.

Laufrani (Isochnus foliorum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Laufrani (Isochnus foliorum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fauna Europaea. Isochnus foliorum. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=251028 [skoðað 20.6.2012]

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963–1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |