Silakeppur (Otiorhynchus arcticus)

Silakeppur - Otiorhynchus arcticus
Mynd: Erling Ólafsson
Silakeppur. 7 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

N-Evrópa suður til Þýskalands og Póllands og austur til Rússlands; Írland, Bretland, Suðureyjar, Hjaltlandseyjar, Færeyjar, A- og V-Grænland.

Ísland: Algengur um land allt, frá fjöru til hæstu fjalla.

Lífshættir

Kjörlendi silakepps eru melar, sandar og annað lítt gróið land, allt frá sendnum sjávarbökkum til fjallamela. Hann forðast grósku og bleytu. Bjöllurnar fara á kreik á nóttinni en leynast á daginn undir steinum og lausum hlutum, t.d. rekaviðarspýtum á ströndum. Þær naga laufblöð fjölmargra plöntutegunda og lirfurnar leggjast á ræturnar. Lífsferill er ekki fyllilega þekktur en gæti spannað tvö ár sem væntanlega fer eftir ríkjandi hitastigi og aðstæðum. Silakeppur fjölgar sér með kynæxlun, þ.e. karldýr eru til staðar. Bæði lirfur og bjöllur leggjast í vetrardvala. Bjöllur hafa fundist á kreiki frá miðjum apríl og fram eftir október.

Almennt

Silakeppur er mjög algeng og útbreidd bjalla á landinu og flestir hafa heiti hans á takteinum. Hins vegar notast það heiti gjarnan jafnt á þessa sem skyldar tegundir ranabjallna sem fólk gerir ekki greinamun á, en silalegur gangurinn skýrir heitið. Silakeppur er alsvartur á lit og gljáandi svo að á hann glittir í sólarljósi ólíkt nánum ættingjum sem eru mun mattari.

Silakeppur (Otiorhynchus arcticus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Silakeppur (Otiorhynchus arcticus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |