Hélukeppur (Otiorhynchus nodosus)

Hélukeppur - Otiorhynchus nodosus
Mynd: Erling Ólafsson
Hélukeppur. 7,5 mm. ©EÓ
Hélukeppur - Otiorhynchus nodosus
Mynd: Erling Ólafsson
Hélukeppur. 7,5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Algengur í N-Evrópu, einkum ofan skógarmarka, og í minni mæli í fjalllendi M-Evrópu, nær austur til Rússlands; fjalllendi á Bretlandi og Írlandi, Suðureyjar, Hjaltlandseyjar, sjaldgæf í Færeyjum, vesturströnd Grænlands.

Ísland: Algengur um land allt, jafnt láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Hélukeppur finnst í margskonar gróðurlendum en er tíðastur þar sem gróska er töluverð og hæfilegur raki í jarðvegi, t.d. í mólendi, deiglendi og skógarbotnum, er einnig á nokkuð grónum melum og algengur í húsagörðum. Bjöllurnar eru mest á ferli á nóttinni en leynast á daginn undir steinum og öðru lauslegu. Þær leggjast á fjölmargar tegundir plantna og naga laufblöð þeirra og barrnálar. Lirfurnar naga rætur fjölmargra plöntutegunda. Þroskatími er mjög breytilegur og fer eftir aðstæðum, en gjarnan hægir á við kuldalegar aðstæður til fjalla. Talið er að lirfan liggi a.m.k. einu sinni í vetrardvala og stundum bíða fullþroska bjöllur í púpuhíðinu yfir veturinn. Karldýr eru óþekkt og fjölgar hélukeppur sér því án þátttöku slíkra. Bjöllur hafa fundist á kreiki frá seinnihluta febrúar og fram í miðjan október.

Almennt

Hélukeppur er algeng bjalla hér á landi og mörgum kunnugleg í sjón. Hann hefur einnig gengið undir heitunum latakind og letikeppur. Heitið hélukeppur er dregið af hélugrárri áferð sem gráleitar hreisturflögur gefa honum. Þessar flögur mást oft af með tímanum og þá hætta keppirnir að standa undir nafni. Þegar vitnað er til ranabjallna sem skaðvalda í garðrækt þá er einkum um hélukepp að ræða. Hélukeppur er töluvert breytilegur bæði að lit og stærð sem kann að orsakast af því að hann fjölgar sér án kynblöndunar.

Hélukeppur (Otiorhynchus nodosus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hélukeppur (Otiorhynchus nodosus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |