Eggkeppur (Otiorhynchus ovatus)

Eggkeppur - Otiorhynchus ovatus
Mynd: Erling Ólafsson
Eggkeppur. 5 mm. ©EÓ
Eggkeppur - Otiorhynchus ovatus
Mynd: Erling Ólafsson
Eggkeppur. 5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa og austur um M-Asíu; innfluttur til N-Ameríku. Algengur á öllu útbreiðslusvæðinu en dregur verulega úr algengni á norðlægum slóðum.

Ísland: Reykjavík og Kópavogur.

Lífshættir

Eggkeppur gerir lítt sérhæfðar kröfur til kjörlendis og finnst við fjölbreytileg skilyrði, í skógum og görðum og gjarnan nálægt sjó, bæði í þurrlendi og raklendi. Hann er með fyrstu tegundum til að nema land sem hefur verið raskað. Hann er á ferli á nóttinni og leggst á fjölmargar plöntutegundir, jafnt jurtir sem lauftré og barrtré, bæði á laufblöð og börk. Bjöllur sem liggja í vetrardvala koma fram á vorin til að verpa. Lirfurnar éta rætur. Þroskaferlið getur tekið tvö ár og þá leggjast þær lirfur sem ekki ná fullum þroska á fyrsta sumri í dvala og halda vexti áfram að honum loknum.

Almennt

Eggkeppur var um tíma talinn fágætur slæðingur hingað til lands með stofublómum. Hann hafði fundist tvívegis í Reykjavík (1987 og 2008) og einu sinni í Kópavogi (2001). Hann virðist nú hafa fest sig í sessi í húsagörðum. Árið 2010 fannst fjöldi eggkeppa undir parketi í húsi í Reykjavík. Þeir höfðu án efa borist inn utan úr garðinum og safnast þar fyrir í skjóli undir parketinu. Aftur 2011 fékkst staðfesting á að tegundin væri hér viðloðandi í Reykjavík. Búast mátti við því að eggkeppur myndi setjast hér að, þar sem hann er mjög algengur í nágrannalöndum okkar og berst hingað auðveldlega með innfluttum gróðurvörum. Í húsagörðum okkar eru ágæt skilyrði fyrir eggkepp.

Eggkeppur er dæmigerð ranabjalla eins og garðræktendur sjá þær fyrir sér, hægfara, kúpt bjalla með harða svargráleita skel. Hann er nokkru minni en skyldar tegundir.

Otiorhynchus ovatus - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Otiorhynchus ovatus - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |