Trjákeppur (Otiorhynchus singularis)

Trjákeppur - Otiorhynchus singularis
Mynd: Erling Ólafsson
Trjákeppur. 7 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa nema allra syðst; Færeyjar; innfluttur til N-Ameríku.

Ísland: Suðvesturland á höfuðborgarsvæðinu, í Keflavík og Hveragerði, einnig í Skagafirði.

Lífshættir

Trjákeppur finnst hér eingöngu í húsagörðum, einkum í gamalgrónum hverfum með gömlum trjám. Hann er fjölhæfur í fæðuvali, nagar brumknappa, börk og blöð eða barr á margskonar lauf- og barrtrjám, en getur einnig lagst á lágvaxnari plöntur. Ef hann fer á kreik í hlýindum að vetrarlagi nagar hann gjarnan fallin laufblöð. Bjöllurnar eru á ferli frá því snemma á vorin og langt fram eftir hausti og hafa fundist lifandi í desember, janúar og febrúar. Þær athafna sig fyrst og fremst á nóttinni. Trjákeppur getur skaðað trjágróður sérstaklega með því að naga brum. Hann verpir í fyrri hluta sumars, lirfurnar naga rætur á ungum trjáplöntum og leggjast í vetrardvala. Þær púpa sig á vorin. Bjöllurnar eru langlífar og geta lifað í allt að þrjú ár.

Almennt

Trjákeppur fannst fyrst hérlendis í Reykjavík 1968 og varð smám saman mjög algengur á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur dreifst hægt út á landsbyggðina, fannst þó í Skagafirði 1981, síðan í Hveragerði 1988 og Keflavík 2008. Hvergi er meira af trjákepp en í hverfum þar sem elstu greni- og reyniviðartré vaxa, t.d. í Þingholtunum í Reykjavík. Þar sem trén vaxa upp með húsveggjum fara trjákeppirnir oft yfir á veggina og slæðast þá stundum inn um opna glugga jafnvel á efstu hæðum húsa. Þó er algengara að þeir þvælist inn um glugga og glufur á jarðhæðum og inn með óþéttum dyrakörmum og þröskuldum á niðurgröfnum kjöllurum. Þrátt fyrir þessa áráttu eiga þeir ekkert erindi inn fyrir húsdyr og drepast þar fljótlega. Stundum safnast þeir fyrir í miklum fjölda á gólfum í kjöllurum þar sem umgengni er lítil og vekja með því grunsemdir um að vandamál sé í gangi. Svo er þó engan veginn og er ekkert að óttast.

Trjákeppur er auðþekktur frá öðrum keppum og ranabjöllum. Hann er einlitur gulbrúnn á lit, mattur og skelin nokkuð hrjúf.

Trjákepur (Otiorhynchus singularis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Trjákepur (Otiorhynchus singularis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks Dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |