Mynd: Erling Ólafsson
Húskeppur. 10 mm. ©EÓ
Útbreiðsla
Evrópa og Azoreyjar, innanhúss á nyrstu slóðunum. Hefur flust frá Evrópu til N-Ameríku, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Japans.
Ísland: Innanhús á höfuðborgarsvæðinu og hefur auk þess fundist á nokkrum stöðum úti á landsbyggðinni; Borgarnes, Stykkishólmur, Mýrdalur, Selfoss, Njarðvík, Mývatnssveit.
Lífshættir
Hér á landi lifir húskeppur á ýmsum tegundum pottaplantna. Lirfurnar eru í moldinni og éta ræturnar en fullorðnu bjöllurnar skríða úr fylgsnum þegar birtu bregður, skríða upp eftir plöntunum og naga laufblöðin, einkum á blaðjöðrum. Plöntur geta beðið skaða af ágangi bjallnanna.
Almennt
Uppeldisstöðvar húskepps eru fyrst og fremst í gróðurhúsum, en þaðan berst hann gjarnan í gegnum blómaverslanir í heimahús. Hans verður vart allan ársins hring, enda lifir hann alfarið innanhúss, en sést gjarnan í auknum mæli í desember, sem e.t.v. tengist því að þá eru jólastjörnur (Euphorbia pulcherrima) keyptar inn á flest heimili. Húskeppur þrífst best þar sem hann kemst í stóra blómapotta eða blómaker með miklum jarðvegi. Stórgerðar plöntur, gjarnan þykkblöðungar, með blaðslíðrum til að leynast í yfir daginn henta húskepp best. Skaðinn beinist eingöngu að plöntum á heimilunum en það er viðráðanlegt tjón sem hægt er að komast yfir.
Húskeppur er stór ranabjalla, stærri en aðrir keppir. Hann er grámattur með hrjúfa, vörtótta skel. Á skjaldvængjum eru toppar af gylltum hárum sem kunna að mást af með tímanum.
Húskeppur (Otiorhynchus sulcatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Heimildir
Erling Ólafsson 1993. Athyglisverð skordýr: Húskeppur. Náttúrufræðingurinn 63: 274.
Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.
Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.
Höfundur
Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 22. mars 2013.
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp