Hrísrani (Sitophilus oryzae)

Hrísrani - Sitophilus oryzae
Mynd: Erling Ólafsson
Hrísrani. 4 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Útbreiddur um mestallan heiminn en á er talinn eiga uppruna að rekja til ræktunarlanda hrísgrjóna í A-Asíu.

Ísland: Fundinn frá Vogum á Vatnsleysuströnd austur í Mýrdal; Reykjavík og nágrannasveitarfélög, Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfoss; einnig Stykkishólmur og Patreksfjörður.

Lífshættir

Hrísrani lifir eingöngu innanhúss og finnst þar allan ársins hring. Hann lifir fyrst og fremst á hrísgrjónum, einnig á maís og annari harðri og grófri kornvöru. Kvendýrin naga litlar holur í hrísgrjónin og verpa eggjum sínum í þær. Lirfurnar sem klekjast úr eggjunum halda síðan áfram að éta grjónin innan frá og hafa nær holað þau innan þegar fullum vexti er náð. Þá púpa þær sig inni í grjónunum. Hrísrani er hitakær en kjöraðstæður eru við 27–31°C og yfir 60% raka. Undir 17°C stöðvast allur þroski og öll stig drepast við 0°C. Þroskatíminn er um fimm vikur við 30°C. Bjöllurnar geta lifað í allt að átta mánuði og framleitt 300–400 egg á æviskeiðinu. Hrísrani er mikilvirkur skaðvaldur í grjónum og annarri kornvöru á suðlægum slóðum.

Almennt

Hrísrani fannst hér fyrst í Reykjavík árið 1931 í ómöluðum maís. Hann berst til landsins reglulega með sýktum kornvörupakkningum, einkum hrísgrjónum. Gera má ráð fyrir að hrísrani haldist við í híbýlum okkar í einhverjum mæli en þó er líklegra að reglubundinn innflutningur geri það frekar að verkum að hann geri sig heimakominn hjá okkur. Stundum eru pakkningar svo illa sýktar að krökkt er af bjöllum í þeim. Þær eru kvikar og líflegar, auk þess fleygar, og geta því verið fljótar að dreifast úr sýktum pakkningum um matarbúr og eldhúsinnréttingar í leit að hentugri fæðuvöru. Yfirleitt verða bjöllur þessar auðveldlega upprættar vegna þess hve sérhæfðar þær eru matarvali og kræfar á aðstöðu.

Hrísrani er langegglaga og eru skjaldvængir sem hylja afturbolinn álíka langir og samanlagt höfuð og óvenju langur hálsskjöldurinn. Fram úr höfðinu trjónar langur íboginn rani. Skelin er svört á lit, mött, og hliðlægt framarlega og aftarlega á skjaldvængum eru litlir rauðleitir blettir. Lirfurnar eru kubbslegar, hvítar og fótalausar.

Hrísrani (Sitophilus oryzae) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hrísrani (Sitophilus oryzae) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Geir Gígja 1939. Nýjar skordýrategundir fyrir Ísland. Skýrsla um Hið ísl. náttúrufræðifélag 1937–38: 36–38.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Wikipedia. Sitophilus. http://en.wikipedia.org/wiki/Sitophilus [skoðað 14.4.2010]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |