Birkirani (Strophosoma melanogrammum)

Birkirani - Strophosoma melanogrammum
Mynd: Erling Ólafsson
Birkirani. 6 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa, frá Pýreneafjöllum til N-Noregs, algengastur vestan til í álfunni, innfluttur til austurstrandar N-Ameríku og Azoreyja.

Ísland: Syðst á landinu frá Hvalfirði austur í Lón.

Lífshættir

Skógar eru kjörlendi birkirana. Hann finnst bæði í villtum birkiskógum og plöntuðum barrskógum. Hann étur laufblöð og barrnálar á mörgum trjátegundum, einnig börk. Hér á landi hefur hann einkum fundist á birki (Betula pubescens) en í Skandinavíu eru grenitegundir (Picea) í mestum metum. Hann étur einnig visin laufblöð á jörðu, einkum þeir árrisulu á vorin, og jafnvel blómplöntur.

Bjöllur liggja í vetrardvala og skríða fram í apríl. Þær verpa í lok maí og júní í sprungur í trjáberki og í jarðveg. Eggin klekjast á u.þ.b. tveim vikum og lirfurnar skríða ofan í jarðveginn. Þar nærast þær á rótum allskyns plantna, jafnt grasa, blómplantna og trjáa. Þær hafa fjögur þroskastig og vaxtartíminn er breytilegur. Fullþroska púpa þær sig í jarðveginum og bjöllur skríða úr púpunum þrem til fjórum vikum síðar í ágúst og skríða upp í trén til að éta þangað til þær fara í vetrardvala. Bjöllur sjást þó allt sumarið, hérlendis frá miðjum apríl og fram eftir október, en fæstar á milli kynslóða í júlí. Í ágúst koma saman bjöllur bæði af gömlu og nýju kynslóðinni. Lirfur á þriðja og fjórða stigi eiga það einnig til að leggjast í vetrardvala. Fullorðin bjalla hefur fundist lifandi innanhúss í byrjun janúar en sú gæti hafa borist inn með jólatré, jafnvel innfluttu.

Almennt

Erlendis hefur birkirani stundum valdið umtalsverðum skemmdum á barrtrjám og jafnvel hreinsað af þeim allt barr. Ekki er kunnugt um skaðsemi af hans völdum hér á landi enda telst birkirani tiltölulega sjaldgæfur hér. Stöku sinnum má þó hrista bjöllur af trjám í umtalsverðum fjölda. Birkirani er auðþekktur, kubbslegur og frekar lítill, með stuttan kubbslegan rana og frekar stutta fætur, gulbrúnn eða gylltur á lit með svart strik fremst á mótum skjaldvængja.

Birkirani (Strophosoma melanogrammum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Birkirani (Strophosoma melanogrammum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |