Túnarani (Tropiphorus obtusus)

Túnarani – Tropiphorus obtusus
Mynd: Erling Ólafsson
Túnarani (Tropiphorus obtusus). 6 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norður-Evrópa austur í Rússland, fjalllendi Mið-Evrópu, Bretlandseyjar, e.t.v. Norður- Ameríka.

Ísland: Láglendi um land allt.

Lífshættir

Kjöraðstæður finnur túnarani í túnum og margskonar graslendi, jafnt þurru sem raklendu, þó helst graslendi með þéttum og hæfilega rökum gróðursverði. Hann nærist á margskonar plöntum í graslendinu, fullorðnu dýrin á grænu hlutunum en lirfurnar á rótum. Hefur jafnan mjög hægt um sig yfir daginn en skríður fram að nóttu til eða þegar dimmt er yfir. Hann er talinn liggja vetrardvalann að einhverju leyti á fullorðinsstigi en sennilega í meiri mæli á lirfustigi sem svo lýkur þroskanum að vetri liðnum. Bjöllurnar koma fram um miðjan maí og eru á ferli til hausts.

Almennt

Túnarani er nokkuð algengur á landinu en almennt verður ekki mikið vart víð hann þar sem hann heldur sig mestmegnis til hlés að degi til. Auk þess er hann afar hægfara og liggur gjarnan kyrr í nokkurn tíma eftir að steini hefur verið lyft þar sem hann hefur dulist undir.

Túnarani (6 mm) er meðalstór ranabjalla, áþekkur keppunum (Otiorhynchus) að gerð, kubbslegur, egglaga, heldur stuttfættur. Skelin frekar slétt, þakin þéttum hreisturmynduðum gylltum hárum sem gefa bolnum mjúka gyllta áferð. Undir stækkun glyttir á hreisturflögurnar þegar ljós fellur á.

Túnarani – Tropiphorus obtusus
Túnarani (Tropiphorus obtusus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |