Hagasmella (Hypnoidus riparius)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, austur til Kákasus, um Litlu-Asíu austur til Íran og suður á Arabíuskaga; N-Ameríka.

Ísland: Algeng á láglendi um land allt, á miðhálendinu fundin að fjallabaki, í Þóristungum og Landmannalaugum, einnig í Esjufjöllum í Breiðamerkurjökli.

Lífshættir

Hagasmella finnst í hverskonar þurrlendi og raklendi, s.s. graslendi, túnum, mólendi og skógarbotnum, einnig í minna grónu landi. Lirfurnar eru efst í jarðvegi og naga rætur plantna. Bjöllurnar halda sig mjög gjarnan til hlés undir steinum og finnast frá vori og fram á haust. Þó er talið að þær fari ekki að verpa fyrr en á miðju sumri og deyja áður en vetur brestur á. Lirfurnar leggjast í vetrardvala. Þær eru hægvaxta og liggja sennilega a.m.k. tvo vetur í dvala áður en fullum vexti er náð.

Almennt

Hagasmella, löngum kölluð smellibjalla þar sem hún er eina tegund sinnar ættar hér á landi, er mjög algeng þó ekki beri mikið á henni. Hún fer leynt og fer sér hægt. Þegar stuggað er við henni dregur hún undir sig fætur og liggur sem dauð um hríð áður en hún skríður af stað á ný. Það einkennir margar tegundir smellibjallna, m.a. hagasmellu, að ef þær leggjast á bakið afvelta og ná ekki að koma sér á réttan kjöl þá smella þær upp skjaldvængjunum og skjóta sér upp á hina hliðina.

Hagasmella er auðþekkt og ólík öðrum bjöllum hér á landi. Hún er langvaxin og ávöl til beggja enda. Skjaldvængir eru u.þ.b. tvöfalt lengri en framhlutinn með höfði og hálsskildi. Afturhorn hálsskjaldar eru dregin aftur í langar totur. Fálmarar langir og grannir. Lirfurnar hafa fætur, eru langar og jafnbreiðar fram og aftur, skærgular á lit.

Útbreiðslukort

Heimildir

Fauna Europea. Hypnoidus riparius. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=236072 [skoðað 5.5.2010]

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 5. maí 2010.

Biota

Tegund (Species)
Hagasmella (Hypnoidus riparius)