Fjarkatorta (Glischrochilus quadripunctatus)

Útbreiðsla

Evrópa, Austurlönd nær og Norður-Afríka.

Ísland: Kollafjörður.

Lífshættir

Fjarkatorta finnst í barrskógum, einnig trjáþyrpingum í opnara landi. Tegundin er rándýr sem hefst einkum við undir berki barrtrjáa og í holum sem barkarbjöllur hafa grafið. Bjöllurnar veiða skordýralirfur, m.a. lirfur barkarbjallna, sem lifa undir trjáberkinum og í holum. Tegundin finnst einnig undir berki sumra lauftrjáa. Stundum sjást bjöllur skríðandi utan á trjám og sækja gjarnan í blæðandi sár, nærast sennilega einnig á næringarríkum safa trjánna eins og margar tegundir ættarinnar. Bjöllurnar eru fleygar og leita uppi sködduð tré sem úr blæðir. Þær sjást á ferli allt árið þar sem til þess viðrar en um er að ræða tvo hámarkstoppa, á vorin og haustin, hausttoppurinn væntanlega bjöllur af nýrri kynslóð.

Almennt

Fjarkatorta er algeng um gjörvalla Evrópu, finnst allt til nyrstu héraða og áfram austur eftir Síberíu. Bjallan er því harðger og gæti eflaust þrífist í barrskógum hér á landi svo fremi hún finni sér bráð við hæfi undir trjáberki. Þó aðeins eitt eintak hafi fundist til þessa má líklegt telja að tegundin hafi numið hér land. Þetta eina eintak kom í fiðrildagildru í trjáræktinni á Mógilsá í Kollafirði vikuna 14.-21. maí 2019. Svo vill til að fyrir nokkrum árum fannst á sama stað önnur bjöllutegund sem einmitt lifir þar undir lausum berki á trjánum. Þar kunna að finnast tengsl. Líkast til hafa báðar tegundirnar borist til landsins með innfluttum gróðurvörum. Tegundir tilheyrir undirættkvíslinni Glischrochilus, þeim tegundahópi sem lifir á ránum. Hún getur borið sveppasýkingar milli trjána.

Fjarkatorta (6 mm) er ólík öðrum bjöllum hér á landi og auðgreind frá þeim. Í Evrópu finnast þó líkar tegundir. Bolurinn er frekar flatvaxinn, nánast jafnbreiður og jafnhliða frá stóru höfði og aftur. Afturendi ávalur og sést þar varla í endann á afturbolnum eins og algengt er hjá tegundum ættarinnar. Höfuð er þríhyrnulaga, breiðast um augun, mjókkar fram. Grannir fálmarar enda í vel afmarkaðri þriggja liða kúlulaga kylfu. Áberandi framhorn á hálsskildi sem mjókkar með bogadregnum hliðum aftur að skjaldvængjum og er þar mjórri yfir um en framjaðar samanlagðra skjaldvængjanna. Skelin er svargljáandi, tveir stórir kassalaga rauðgulir blettir á hvorum skjaldvæng sem aðfelldir mynda fjarkamynstur á baki bjöllunnar.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hansen, V. 1950. Biller XIII. Clavicornia 1. del. Danmarks Fauna 55. Gads Forlag, København.

Zahradník, J. 1976. Dönsk þýðing, Langer T.W. 1978. Lademanns Naturfører. Insekter. Lademanns Forlagsaktieselskab, København.

Danmarks Fugle og Natur. Felthåndbogen. Glischrochilus quadripunctatus. (https://www.fugleognatur.dk/artsbeskrivelse.asp?ArtsID=5837)

Wikipedia. Glischrochilus quadripunctatus. (https://en.wikipedia.org/wiki/Glischrochilus_quadripunctatus)

Höfundur

Erling Ólafsson, 27. maí 2019.

Biota

Tegund (Species)
Fjarkatorta (Glischrochilus quadripunctatus)