Sniglanárakki (Phosphuga atrata)

Sniglanárakki – Phosphuga atrata
Mynd: Erling Ólafsson

Sniglanárakki (Phosphuga atrata). 10 mm. ©EÓ

Sniglanárakki – Phosphuga atrata
Mynd: Erling Ólafsson

Sniglanárakki (Phosphuga atrata), lirfa. 12 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa nema allra syðst og nyrst, austur um Asíu til Kína og Japans, Suður-Afríka.

Ísland: Mógilsá í Kollafirði.

Lífshættir

Heimkynni sniglanárakka eru fyrst og fremst í skógum með raklendum skógarbotnum og rotnandi trjálurkum. Slíkar aðstæður henta einnig sniglum sem bjallan lifir á. Hún leggst  einkum á stóra snigla með kuðungshúsi, í minna mæli á ánamaðka, skordýr og hræ. Bjöllurnar eru á ferli að nóttu til, fela sig á daginn í gróðursverði, undir steinum og lurkum, einnig undir lausum trjáberki á trjástofnum. Fullorðnar bjöllur makast á sumrin og haustin og leggjast í vetrardvala. Þær verpa að dvalanum loknum, uppvöxtur lirfanna hefst og þær púpa sig þegar líður á sumarið. Ný kynslóð bjallna makast fyrir vetrarsvefninn eins og fyrr getur. Fullorðnar bjöllur eru því á ferli fyrrihluta sumars og þegar hausta tekur. Hér hafa þær fundist frá 15. apríl til 11. júní og aftur 29. ágúst til 12. nóvember. Lirfur langt komnar í uppvexti hafa fundist 30. júlí til 20. ágúst. Bæði fullorðnar bjöllur og lirfur leggjast á sniglana lifandi. Þær þrengja hausnum inn undir kuðungshúsið og éta fyrst varnarslímið sem snigillinn gefur frá sér. Síðan éta þær snigilinn sjálfan, leysa upp hold hans með meltingarvökva. Á þetta bæði við um fullorðnar bjöllur og lirfur.

Almennt

Sniglanárakki er útbreiddur í Evrópu. Á Norðurlöndunum vegnar honum ágætlega norður í miðbik Skandinavíuskagans en fer fækkandi þegar dregur norðar. Tegundin fannst fyrst hér á landi í maí 2012 í trjárækt Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá í Kollafirði. Við leit næsta sumar fannst tegundin ekki en endurtekin leit vorið 2014 bar árangur. Síðan hafa bæði fullorðnar bjöllur og lirfur fundist árlega á staðnum. Enn er Mógilsá eini fundarstaðurinn. Sniglanárakki er eina tegund ættarinnar sem numið hefur landið. Óljóst er hvernig hann hefur borist til Mógilsár en væntanlega tengist það mönnum. Lyngbobbi (Arianta arbustorum) er ákjósanleg bráð sniglanárakkans. Hann fannst fyrst á Mógilsá árið 2015 og hefur fjölgað síðan. Bráð og ræningi virðast hafa borist þangað á svipuðum tíma.

Sniglanárakki (8-12 mm) er breiður og flatvaxinn, ávalur til beggja enda, jafnbreiður yfir hálsskjöld og skjaldvængi (5-6 mm). Nýklakin bjalla er rauðbrún á lit en hún dökknar fljótlega og verður alsvört með bláleitum gljáa. Haus er lítill og mjór með langan háls og langa framteygða kjálka, vel gerður til að þrengja inn undir kuðungsskel. Fálmarar eru langir og grannir og mynda þrír endaliðir kylfu. Hálsskjöldur er stór, sléttur, nokkuð kúptur, breikkar aftur, skjaldvængir með grófum rifflum. Tegundin er ófleyg. Lirfur (14 mm) eru einnig svartar og gljáandi, flatvaxnar, sterkbyggðar og grófgerðar. Skelin er þykk og hörð. Þrjár stórar bakplötur á frambol. bakplötur á afturbol styttri, níu talsins, með útstæðum uppsveigðum hliðarköntum og kanthornum sem vita aftur, kviðplötur einnig sterkar. Fætur vel þroskaðir, fálmarar úr þrem löngum liðum. Lirfan innbyrðir mikinn mat þegar hún finnur bráð og þenst út.

Sniglanárakki – Phosphuga atrata
Sniglanárakki (Phosphuga atrata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Kreiling, A.-K., Matthías Alfreðsson & Erling Ólafsson 2015. Sniglanárakki (Phosphuga atrata (L.)) finnst á Íslandi (Coleoptera; Silphidae). Náttúrufræðingurinn 85: 24-27.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |