Dritbjalla (Alphitobius diaperinus)

Dritbjalla - Alphitobius diaperinus
Mynd: Erling Ólafsson
Dritbjalla. 7 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Upprunnin í A-Afríku en talið er að hún hafi tekið að breiðast út um heimsbyggðina um miðja 20. öld.

Ísland: Tveir fundarstaðir, í Ölfusi og Stafholtstungum í Borgarfirði.

Lífshættir

Í upprunalegum heimkynnum í Afríku lifir tegundin í driti og skít í fuglshreiðrum og leðurblökuhellum. Hún hefur dreifst þaðan með kornflutningum og fundið hagstæð lífsskilyrði í alifuglabúum í nýjum heimkynnum víða um heim. Bæði bjöllur og lirfur éta flest tilfallandi í búunum, skít, korn og fæðuleifar, dauð skordýr og hræ fugla og nagdýra. Hvert kvendýr verpir um 2000 eggjum og við 32°C tekur þroskaferlið frá eggi til bjöllu aðeins um einn mánuð. Enginn þroski eða vöxtur á sér stað undir 15°C. Öll þroskastig drepast eftir nokkra daga við hitastig undir frostmarki. Þegar lirfur eru fullvaxnar grafa þær sig inn í eitthvað nærtækt í umhverfinu, t.d. í djúpa dritskán, glufur eða einangrun í veggjum og púpa sig þar.

Almennt

Dritbjalla er tiltölulega nýlegt vandamál í nágrannalöndum okkar í N-Evrópu. Í Noregi uppgötvaðist hún t.d. í alifuglabúi árið 1996. Hún fannst fyrst hérlendis 2007 í hænsnabúi í Ölfusi. Húsið hafði verið tómt eftir þrif þegar bjöllurnar tóku að streyma út úr vegg. Lirfur höfðu komið sér fyrir í veggnum og bjöllurnar voru að skríða úr púpum þegar þær birtust. Vorið 2009 voru þær enn við lýði í búinu. Síðar fannst hún í alifuglabúi í Borgarfirði.

Dritbjalla er alvarlegt vandamál í alifuglarækt því hún geymir í sér og ber þá helstu sýkla sem orsaka vandamál í atvinnugreininni, s.s. Escherichia coli, Campylobacter og Salmonella. Bjöllurnar innbyrða sýklana þegar þær éta skítinn og geta forðað þeim undan í skjól á meðan hús eru hreinsuð og svo plantað þeim aftur í fuglana þegar þeim er hleypt inn í húsið á ný. Þannig viðhalda dritbjöllur sýkingum í búum. Stuttur þroskatími, mikil frjósemi, næg og fjölbreytt fæða og hagstætt hitastig í alifuglabúum gerir það að verkum að fjölgun bjallnanna getur orðið gríðarleg á skömmum tíma. Auk þess að viðhalda sýkingum valda þær alvarlegum skaða á einangrun í veggjum. Dritbjalla er því alvarlegt vandamál sem kallar á markvissar aðgerðir. Bjöllur geta borist með skít sem fjarlægður er úr búunum. Ef honum er dreift á tún eiga þær möguleika á að dreifast þaðan því þær fljúga ötullega á sólríkum sumardögum.

Dritbjalla (7 mm) er gljáandi svört á lit og ekki óáþekk hveitibjöllum að sköpulagi enda skyld þeim.

Dritbjalla (Alphitobius diaperinus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Dritbjalla (Alphitobius diaperinus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Folkehelseinstituttet 2009. Liten melbille. http://www.fhi.no/artikler/?id=76035 [skoðað 7.8.2009].

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |