Mjölbjalla (Tenebrio molitor)

Mjölbjalla - Tenebrio molitor
Mynd: Erling Ólafsson
Mjölbjalla, 16 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Upprunnin í Evrasíu, útbreidd um heim allan. Þrífst utanhúss á Norðurlöndum, í Svíþjóð allt norður til Norrbotten.

Ísland: Fáeinir fundarstaðir; Reykjavík, Ísafjörður, Keflavíkurflugvöllur.

Lífshættir

Mjölbjalla lifir á fjölbreyttri fæðu, einkum plöntuafurðum og plöntuleifum, en einnig á fæðu úr dýraríkinu. Í upprunalegum heimkynnum lifir hún m.a. í fuglshreiðrum í trjáholum og við önnur sambærileg skilyrði. Annars staðar kemur hún sér fyrir í mjölgeymslum og þrífst best í skemmdu mjöli sem raki hefur komist í. Mjölbjallan var til vandræða í bakaríum í nágrannalöndum okkar áður fyrr en er það ekki lengur þar sem nútímalegar kröfur til hreinlætis eru viðhafðar. Við eðlilegar aðstæður tekur lífsferillinn tvö ár en er annars breytilegur. Mjölbjalla er mjög frjósöm og verpir allt að 500 eggjum. Í heimkynnum sínum eru bjöllurnar er einkum á ferli á nóttinni, fljúga og sækja gjarnan inn um glugga í leit að fæðu til að verpa í.

Almennt

Mjölbjalla berst með mjölsendingum um heim allan. Hún er fáséð hér á landi, fannst fyrst í Reykjavík 1934 og nokkru síðar á Ísafirði. Síðan varð hún ekki staðfest hér fyrr en 2009 í íbúð á Keflavíkurflugvelli. Þar með er sagan þó ekki öll sögð, því mjölbjöllur hafa sennilega af og til verið fluttar til landsins í einhverjum mæli og ræktaðar sem gæludýrafæða. Yfirlit yfir þann þátt er ekki til aðgengilegt. Lirfur mjölbjöllunnar eru allstórar, allt að 25 mm, og eru afar prótínríkar. Þær henta því einkar vel sem fæða í gæludýrabransanum t.d. fyrir skriðdýr og jafnvel fugla. Þær eru einnig notaðar erlendis til að fæða garðfugla einkum á varptíma þegar þeir hafa mikla þörf fyrir prótínríka fæðu við uppeldi unga sinna.

Auðvelt er að rækta mjölorma með því að ala þá á hveiti eða haframjöli en gæta þarf þess að blanda mjölið með ávaxtabitum eða fersku grænmeti til að halda uppi hæfilegu rakastigi. Mjölbjalla getur valdið tjóni á mjölvöru en þó verður skemmt mjöl frekar fyrir barðinu á henni þannig hún er sjaldnar upphaflegur skaðvaldur.

Menn hafa haft meiri not af mjölbjöllum en sem fæðu fyrir gæludýr sín. Mjölormar hafa verið notaðir í framleiðslu á ákveðnu sælgæti til að gefa því tequila bragð. Sennilega fellur sælgæti það ekki að smekk allra. Þær eru þó að öllu jöfnu ekki notaðar í tequila drykki en þar koma fiðrildalirfur hins vegar við sögu.

Mjölbjalla er stór miðað við ættingja hennar aðra hét á landi, jafnbbreið fram og aftur, dökkdumbrauð til svört á lit.

Mjölbjalla (Tenebrio molitor) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Mjölbjalla (Tenebrio molitor) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Wikipedia 2009. Mealworm. http://en.wikipedia.org/wiki/mealworm [skoðað 12.11.2009]

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Geir Gígja 1939. Nýjar skordýrategundir fyrir Ísland. Skýrsla um Hið ísl. náttúrufræðifélag 1937–38: 36–38.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |