Sterkjubjalla (Tribolium confusum)

Sterkjubjalla - Tribolium confusum
Mynd: Erling Ólafsson
Sterkjubjalla. 3,5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Upprunnin í hitabeltislöndum, útbreidd um heim allan.

Ísland: Hefur fundist í Reykjavík, Mosfellsbæ, Borgarfirði og á Akureyri.

Lífshættir

Sterkjubjalla finnst innanhúss. Bæði fullorðnar bjöllur og lirfur nærast á mjölvöru af flestu tagi, einnig ertum, baunum, hnetum, þurrkuðum ávöxtum, kryddvörum, súkkulaði og jafnvel grasasöfn geta verið í hættu. Sterkjurík fæða er henni að skapi. Sterkjubjalla er hitakær, með kjörhita um 30°C og æxlast ekki undir 18°C. Þó hún verpi miklum fjölda eggja virðist henni ekki fjölga hratt nema hiti sé í hærra lagi. Í ræktunartilraun við stofuhita hafði bjöllunum fjölgað aðeins lítillega á einum mánuði. Tegundin er mun algengari í húsnæði þar sem unnið er með mjölvörur en í heimahúsum.

Almennt

Sterkjubjalla fannst fyrst í Reykjavík 1940 og hefur fundist alloft síðan. Síðar fannst hún í heimahúsi í Mosfellsbæ (2006), í mjölgeymslu alifuglabús í Reykholtsdal í Borgarfirði (2008) og á heimili á Akureyri (2009). Hún hefur ekki náð útbreiðslu á landinu svo teljandi sé og telst því ekki alvarlegt meindýr nema helst í tímabundnum tilvikum. E.t.v. tengist hún að einhverju leyti sýktum mjölförmum sem kunna að berast til landsins.

Sterkjubjalla er smávaxin, mjó, staflaga, rauðbrún eða kastaníurauð á lit. Hún líkist kornbjöllu (T. castaneum), þekkist frá henni á því að þrír ystu liðir fálmara aðgreinast ekki greinilega frá öðrum liðum.

Sterkjubjalla (Tribolium confusum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Sterkjubjalla (Tribolium confusum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |