Garðaklaufhali (Forficula auricularia)

Útbreiðsla

Umhverfis norðurhvel; Evrópa, Asía, Miðjarðarhafslönd, N-Ameríka; sunnan til á Norðurlöndum, Hjaltlandseyjar, Færeyjar.

Ísland: Garðaklaufhalar hafa fundist víða um land, flestir á höfuðborgarsvæðinu, einnig í Grindavík, Búðardal, Ólafsvík, á Grundarfirði, Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki og Akureyri, svo og undir Eyjafjöllum.

Lífshættir

Garðaklaufhali nærist einkum á rotnandi plöntu- og dýraleifum og er einkar sólginn í skemmda ávexti. Dýrin athafna sig einkum að næturlagi og safnast þá gjarnan mörg saman í æti. Á veturna koma kvendýrin sér fyrir í holu í jörðu og verpa þar á tímabilinu nóvember til mars. Þau annast eggin og sjá til þess að þau þroskist eðlilega og verði ekki sýkingum að bráð. Þegar eggin klekjast deyja mæðurnar og eru étnar upp af afkvæmum sínum.

Almennt

Garðaklaufhali berst reglulega til landsins með ýmsum varningi, ekki síst grænmeti. Hann berst í mismiklum mæli eftir því hvernig honum vegnar úti í Evrópu, en áraskipti eru af honum þar. Hann fannst fyrst í Reykjavík 1902. Stundum voru uppi vísbendingar um að hann væri að stinga sér niður á landinu, t.d. í gróðurhúsum. Slíkum tilfellum fór svo fjölgandi þegar leið að aldamótunum síðustu. Dæmi voru um fasta bólsetu í húsum eða þeim tengt á Álftanesi og í Búðardal. Ljóst er orðið að garðaklaufhali hefur sest að í Árbæjarhverfi og Hólahverfi í Reykjavík en þar finnst hann árlega í nokkrum mæli á vissum stöðum, ekki síst á haustin.

Haustið 2011 urðu þáttaskil hjá klaufhalanum. Verulegur fjöldi fannst í tveim aðskildum hverfum í Hafnarfirði, annars vegar í kjallara gamals húss, einnig í laufbing í aðliggjandi garði þegar að var gáð, og hins vegar í kringum blómapott á verandarpalli. Þar leituðu dýrin einnig inn í húsið.

Garðaklaufhalar eru auðþekktir frá öðrum skordýrum hér á landi. Þeir eru langir og grannir, misstórir. Höfuð og afturbolur rauðbrún, hálsskjöldur, stuttir yfirvængir og fætur gulir, hálsskjöldur dökkur um miðbikið, þunnir samanbrotnir flugvængir undir yfirvængjum, en fullorðin dýr eru fleyg. Fálmarar eru langir og grannir. Klaufhalar þekkjast auðveldlega á tveim hörðum, sterklegum stöfum (halaskottum) aftur úr bolnum sem eru kræktir á karldýrum en nær beinir á kvendýrum. Ungviði svipuð að sköpulagi en aðeins með litla vængvísa.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Bjarni Sæmundsson 1931. Nýjungar úr dýraríki Íslands. Skýrsla um Hið ísl. náttúrufræðisfélag 1929–30: 32–39.

Erling Ólafsson 1993. Athyglisverð skordýr: Garðaklaufhali. Náttúrufræðingurinn 63: 158.

Tuxen, S.L. 1938. Orthoptera and Dermaptera. Zoology of Iceland III, Part 38. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 5 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 20. nóvember 2013.

Biota

Tegund (Species)
Garðaklaufhali (Forficula auricularia)