Jarðkakkalakkaætt (Blaberidae)

Almennt

Jarðkakkalakki er samheiti tegunda þessarar ættar sem er sú næst tegundaríkasta í ættbálkinum og finnst í öllum heimsálfum þó tegundunum sé verulega misdreift á meginlöndin. Til dæmis finnast fáar tegundir í Evrópu og Ástralíu. Alls eru um 650 tegundir þekktar í heiminum en aðeins 4 í Evrópu og tilheyra þær 3 ættkvíslum.

Tegundirnar eru meðalstórar til mjög stórar og sterkbyggðar (10-60 mm) með breiðan bol. Flestar eru brúnar á lit, fölbrúnar til dökkbrúnar, sumar skrautlegri, aðrar eru grænar. Fætur eru tiltölulega stuttir svo og fálmarar sem að öllu jöfnu ná ekki hálfri bollengdinni. Er það aðlögun að lífi ofan í gróðursverði en þar halda flestar tegundanna til. Stutt liðskipt skott (cerci) á afturbol, vantar stundum. Kynplata karldýra er ósamhverf. Sumar tegundir gefa frá sér blásturshljóð með því að þrýsta lofti út um loftopin.

Kakkalakkar þessarar ættar fæða lifandi afkvæmi. Allir aðrir verpa eggjum í þar til gerð egghulstur (oothecae). Reyndar framleiða þessir líka egghulstur en eggin klekjast innvortis.

Þessar tegundir eru ekki meinsemdir í húsum enda lífshættir annars eðlis. Margar af stærri tegundunum eru vinsæl gæludýr víða um heim vegna stærðar og stundum skrautlegra lita og vegna þess að af þeim stafar engin hætta á heimilum þó þær sleppi úr búrum. Auk þess eru flestar vel viðránanlegar, ófleygar og tiltölulega hægfara. Sumar eru þó kvikari og ágætlega fleygar. Stærsta tegund kakkalakka í heiminum tilheyrir ættinni, þ.e. nashyrningskakkalakkinn (Macropanesthia rhinoceros) sem vegur allt að 30 grömmum.

Á Íslandi hafa fundist 3 tegundir slæðinga. Ein að auki hefur verið flutt inn og haldin sem gæludýr.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |