Grænkakkalakki (Panchlora sp.)

Grænkakkalakki - Panchlora sp.
Mynd: Erling Ólafsson
Grænkakkalakki. 20 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Af ættkvíslinni Panchlora finnast um 50 tegundir í Suður- og Mið-Ameríku, eyjar í Karíbahafi meðtaldar, og einhverjar ná norður í suðurríki Bandaríkjanna. Kakkalakkar af þessu tagi berast með varningi, einkum banönum, til annarra heimshluta en tegundirnar eru torgreindar. Ekki er vitað með vissu hvaða tegund eða tegundir hafa slæðst til Íslands. Því verður ekkert frekar um heimkynni þeirra sagt.

Ísland: Slæðingur fundinn hér og þar á landinu, á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og á Álftanesi, einnig fundinn á Selfossi, Heimaey, Sauðárkróki, Hofsósi og Egilsstöðum.

Lífshættir

Grænkakkalakkar eru plöntuætur sem lifa í náttúrunni og á plantekrum. Þeir klifra léttilega, halda sig einkum í trjám og runnum og eru einkum á ferli að nóttu til. Þeir lifa ekki í húsum og teljast ekki til meindýra. Fullorðin dýr eru mjög kvik, fljúga ötullega og eru snör að koma sér fyrir í fylgsnum. Kakkalakkar þessir er afar fundvísir á sprungur og glufur til að forða sér snarlega í felur. Ungviðið grefur sig í rotnandi svörð og undir trjálurka. Annars liggja ekki fyrir miklar upplýsingar um lífshættina.

Almennt

Grænkakkalakkar hafa fundist hér á landi allt frá árinu 1926 en fyrsta skráða og varðveitta eintakið fannst í Reykjavík í september það ár. Þess hefur verið getið að á árabilinu 1926–1933 hafi verið um mörg tilvik að ræða í Reykjavík. Tvö eintök frá þeim tíma eru varðveitt í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Vitnað hefur verið til tegundarinnar undir heitunum Panchlora cubensis (e.t.v. samheiti P. nivea (Linnaeus, 1758)) og P. peruana (Saussure, 1864).

Á Náttúrufræðistofnun eru geymd alls 15 eintök frá árabilinu 1984–2011 auk gömlu eintakanna sem getið var að ofan. Einnig hefur af og til heyrst af grænum kakkalökkum sem fundist hafa í bananaklösum en ekki verið haldið til haga og komið til varðveislu hjá stofnuninni. Í flestum tilvikum hefur mátt tengja þessa grænu kakkalakka til banana í matvöruverslunum eða á heimilum eftir verslunarleiðangra heimilisfólks. Fólk verður gjarnan hvumsa við að sjá kvikindin skjótast á milli banananna í ávaxtaskálinni en ástæðulaust er að hafa áhyggjur, því grænkakkalakki á enga lífsvon í híbýlum okkar. Þar sem grænkakkalakki er fleygur vel hefur einnig sést til hans á flögri. Nýjasta tilvik barst Náttúrufræðistofnun eftir að grænn kakkalakki hafði gælt við eyra húsmóður við eldhússtörf í Reykjavík!

Grænir kakkalakkar berast iðulega með bananasendingum til nágrannalanda okkar í Evrópu. Þeir eru gjarnan kenndir við banana eða Kúpu. Þar er sama vandamálið varðandi tegundaákvörðun, en heitið Panchlora nivea (Linnaeus, 1758) sést öðrum heitum oftar í þessu sambandi. Lausn á nafngiftamálinu bíður síðari tíma.

Grænkakkalakki er afar sérstakur í útliti og engum öðrum líkur. Hann er dæmigerður kakkalakki í vexti, flatvaxinn og breiður, þó mun flatvaxnari en aðrir sem hér sjást og fótastyttri. Þegar þeir skjótast sjást fætur varla standa út undan bolnum. Kakkalakkinn er einkennandi fölgrænn, einlitur að undanskilinni mjórri gulri rönd á hliðum, sem liggur rétt innan við jaðar framvængja, frá þeim miðjum og fram á hálsskjöldinn. Utan við gulu röndina eru jaðrarnir glertærir, bæði á væng og hálsskildi. Fálmarar eru tiltölulega stuttir eða um hálf lengd dýrsins aftur á vængenda sem standa nokkuð aftur fyrir sjálfan bolinn. Gyðlur eru hins vegar brúnar eða svartar á lit. Kvendýr eru mun stærri en karldýr.

Grænkakkalakki (Panchlora sp.) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Grænkakkalakki (Panchlora sp.) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Angelfire. Allpet Roaches (Blattodea) http://www.angelfire.com/oh2/Roaches

Bjarni Sæmundsson 1931. Nýjungar úr dýraríki Íslands. Skýrsla um Hið ísl. náttúrufræðisfélag 1929–30: 32–39.

Geir Gígja 1934. Kakalakar (Blattoidea). Náttúrufræðingurinn 4: 75–80.

Lindroth, C.H. 1931. Die Insektenfauna Islands und ihre Probleme. Zool. Bidr. 13: 105–589.

Tuxen, S.L. 1938. Orthoptera and Dermaptera. Zoology of Iceland III, Part 38. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 5 bls.

Wikipedia. Panchlora http://en.wikipedia.org/wiki/Panchlora [skoðað 23.3.2011]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |