Víðireklafluga (Egle lyneborgi)

Víðireklafluga - Egle lyneborgi
Mynd: Erling Ólafsson
Víðireklafluga, karldýr. 2,5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel beggja vegna Atlantshafs en útbreiðslan er illa skráð vegna ruglings við líkar tegundir þar til fyrir skemmstu að tegund þessi var aðgreind frá öðrum. Í Evrópu staðfest á Norðurlöndunum öllum, Bretlandi, Spáni, Ítalíu og í Sviss. Einnig fundin í norðan- og vestanverðri N-Ameríku.

Ísland: Láglendi umhverfis landið, á Vestfjarðakjálka á Barðaströnd en óstaðfest norðar væntanlega vegna ónógra rannsókna.

Lífshættir

Kjörlendi á víðireklafluga í víðimóum og víðikjarri, einnig í görðum í þéttbýli og í sumarhúsalöndum, þar sem víðitegundir eru ræktaðar. Flugurnar koma fram á vorin þegar víðir blómgast. Þær allra fyrstu hafa sést um miðjan apríl en þeim fer fjölgandi er líður á maí og ná þær hámarki í kringum mánaðamótin maí/júní. Á sunnanverðu landinu hverfa flugurnar þegar líða tekur á júní en geta hafst við fram í miðjan júlí á landinu norðanverðu. Flugtíminn helst í hendur við blómgunartíma víðis, bæði villtra tegunda eins og loðvíðis (Salix lanata) og ræktaðra eins og viðju (S. borealis). Flugurnar safnast oft í miklum fjölda á ferska rekla af báðum kynjum. Þær nærast á safa þeirra og frjókornum karlreklanna. Kvenflugur færa sig yfir á kvenrekla til að verpa, en lirfurnar skríða inn í þá og nærast á fræjunum. Þegar svo reklarnir falla af runnunum skríða lirfurnar úr þeim til að púpa sig ofan í sverðinum. Þar hvílir púpan síðan yfir veturinn. Flugurnar launa víðinum fyrir mat og gistingu með því að bera frjókorn á milli rekla og fræva.

Almennt

Víðieklaflugan uppgötvaðist hér tiltölulega seint. Fyrsta skráða eintak er frá árinu 1971. Náskyld tegund, víðifræfluga (Egle minuta), hafði áður fundist hér og það leið nokkur tími áður en ljóst varð, að þessar litlu flugur á víðireklunum tilheyrðu tveim tegundum, sem torvelt var að aðgreina. En þegar það varð kleift kom í ljós að víðifræflugan var rakin hálendistegund en víðireklaflugan láglendistegund. Þær eru því sem næst alveg aðskildar, en afar sjaldgæft er að rekast á þær á saman.

Til skamms tíma var víðireklaflugan ranglega greind sem tegundin Egle podulparia. Árið 2003 var hún aðskilin frá þeirri tegund og lýst undir nýju heiti, E. lyneborgi. Þess má geta að ættkvíslin Egle hefur vafist mjög fyrir fræðimönnum á þessu sviði.

Víðireklaflugan, ásamt víðifræflugunni, er smávöxnust tegunda af kálfluguætt (Anthomyiidae). Annars er hún í útliti dæmigerð tegund þeirrar ættar, eins og þær flestar eru og verður þeim fæstum lýst með orðum sem duga almenningi til að þekkja þær. Þó getur fólk gert ráð fyrir að litlar svartar flugur sem safnast á víðirekla snemmsumars séu víðireklaflugur, þ.e. á láglendi.

Víðireklafluga (Egle lyneborgi) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Víðireklafluga (Egle lyneborgi) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Ackland, D.M. 2003. Egle lyneborgi Ackland & Griffiths, 2003 (Diptera, Anthomyiidae) new to the British list and E. inermis Ackland, 1970 is a good species. Dipterist Digest (Second Series) 10: 84.

Erling Ólafsson 1991. Íslenskt skordýratal. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 17. 69 bls.

Fauna Europaea. Egle lyneborgi. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=406388 [skoðað 22.06.2011]

Michelsen, V. 2009. Revision of the willow catkin flies, genus Egle Robineau-Desvoudy (Diptera, Anthomyiidae), in Europe and neighbouring areas. Zootaxa 2043: 1–76.

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |