Maðkaflugnaætt (Calliphoridae)

Skreiðarbokka - Calliphora vicina
Mynd: Erling Ólafsson
Skreiðarbokka er dæmigerð maðkaflugutegund. ©EÓ

Almennt

Maðkaflugnaætt er flókin og skyldleiki tegundahópa innan ættarinnar umdeildur. Sumir telja vafasamt að allar tegundirnar megi rekja til sama uppruna og því verðskuldi sumir hópanna stöðu sjálfstæðra ætta. Hvað sem því líður eru tegundir ættarinnar taldar um 1.100 í heiminum. Í Evrópu eru um 115 tegundir skráðar.

Maðkaflugur eru stórar tvívængjur og bústnar. Oft eru þær gljáandi, ýmist allur bolurinn eða einhverjir hlutar hans, stundum hágljáandi bláar, grænar, svartar. Höfuð er stórt með stórum stundum fínhærðum augum. Fálmarar eru þriggjaliða með fína langhærða svipu á stórum þriðja lið. Maðkaflugur hafa einkennandi skipan vængæða.

Margar maðkaflugur eru hræætur. Kvenflugur þurfa góða prótínmáltíð til að framleiða egg. Hana fá þær úr hræjum dýra. Síðan er eggjum verpt í hræin þar sem lifrurnar þroskast til lokastigs. Þær ganga í gegnum þrjú þroskastig. Meltingarhvatar leysa fæðuna upp sem síðan er dregin upp í vökvaformi. Þroskatími er tiltölulega stuttur og fer eftir fæðu og hitastigi. Lirfur geta t.d. ná fullum vexti og púpað sig einni til hálfri annarri viku og flugur þroskast í púpu á svipuðum tíma.

Sumar maðkaflugur lifa í skít eða sníkjulífi í öðrum hryggleysingjum og allt upp í spendýr. Er maðurinn þar ekki undanskilinn. Hér á landi eru maðkaflugur þekktar meinsemdir í fiskverkun.

Á Íslandi hafa fundist sex tegundir maðkaflugna landlægar í náttúrunni og mannlegu umhverfi. Tvær þeirra eru nýlegir landnemar. Ein tegund að auki hefur borist til landsins sem lirfa undir húð á langt að komnum ferðamanni. 

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |