Fiskibokka (Calliphora uralensis)

Fiskibokka - Calliphora vicina
Mynd: Erling Ólafsson
Fiskibokka, 9 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

N- og M-Evrópa, norðanverð Asía austur til Mongólíu og Kína, Færeyjar, Grænland.

Ísland: Algeng og útbreidd um land allt, jafn láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Fiskibokka lifir á allskyns rotnandi holdmeti. Hún verpir í hræ af öllu tagi og allan aðgengilegan úrgang dýrakyns, helst nýlega til fallinn. Fiskibokka heldur sig því gjarnan í manngerðu umhverfi, í byggð, við sorptunnur, fiskvinnslustöðvar, skreiðarhjalla svo dæmi séu nefnd. Hún er oft við sjávarsíðuna og leitar í sjórekin hræ, svo og í sjófuglabyggðum þar sem til falla dauðir ungar og matarleifar. Á hálendinu leitar hún uppi kindahræ og úrgang eftir hreindýraveiðimenn, dauða fugla og leifar í kringum refagreni. Þroskatími tekur um 40 daga frá eggi til fullþroska flugu, en það ræðst þó af ríkjandi hitastigi. Flugur hafa fundist á flugi frá viku af maí fram í byrjun september. Fiskibokka hvílir í púpu yfir veturinn.

Almennt

Fiskibokka er algengust maðkaflugna hér á landi en hún er norðræn tegund sem fer hátt til fjalla í Noregi og finnst í fjalllendi M-Evrópu og um gjörvallt Grænland. Hún lætur mikið fyrir sér fara á sólríkum dögum og sest þá gjarnan á húsveggi baðaða sólskini. Hún er þar afar kvik, sífellt að taka sig upp til að sveima um og setjast aftur. Stundum er atgangur flugnanna svo mikill að vængjasuð ómar í eyrum. Fiskibokkur hverfa þegar haustar og maðkaflugur sem sjást síðar eru að öllu jöfnu skreiðarbokkur (Calliphora vicina).

Af ættkvíslinni Calliphora finnast hér þrjár tegundir. Þær kallast einu nafni blábokkur (bluebottles á ensku). Bolur þeirra er bláleitur, bæði frambolur og afturbolur, frambolur alveg mattur en nokkur gljái á afturbol. Vængir eru frekar mattir og svartar vængæðar teikna sig vel. Skeggbokka (C. vomitoria) þekkist á rauðu vangaskeggi en fiskibokka og eru svarthærðar á vöngum. Þær verða hins vegar aðskildar á litnum á lítilli kítínplötu framan á væng við vængrót sem er svört á fiskibokku en rauðleit á skreiðarbokku. Stækkun þarf til að greina þennan útlitsmun.

Fiskibokka (Calliphora uralensis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Fiskibokka (Calliphora uralensis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Jensen, J.-K. & K.A. Thomsen 2009. Nøvn til føroyskar skinfluguslektir og -sløg. Veingjasuð 1: 8–9.

Rognes, K. 1991. Blowflies (Diptera, Calliphoridae) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 24. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd., Leiden. 272 bls.

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |