Hræbokka (Cynomya mortuorum)

Hræbokka - Cynomya mortuorum
Mynd: Erling Ólafsson
Hræbokka, karldýr. 13 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

N-Evrópa og fjalllendi M-Evrópu, allt norður til Jan Mayen og Svalbarða, austur eftir Síberíu til Kyrrahafs, Færeyjar, Grænland og Alaska, en á milli Grænlands og Alaska leysir önnur tegund hræbokku af hólmi í N-Ameríku.

Ísland: Algeng um land allt, allt frá sjó til fjalla á miðhálendinu og jökulskerja í Breiðamerkurjökli.

Lífshættir

Hræbokku má finna hvarvetna þar sem hræ falla til eða nagdýr grafa sér holur, einkum í náttúrunni en hún laðast að litlu marki að bústöðum okkar manna og umhverfi þeirra. Kemur sjaldan inn í hús. Hún sést mjög gjarnan í mólendi og kjarrlendi, og kann það að tengjast músaholum, en hvergi í meiri mæli en við sjávarstrendur, einkum í sjófuglabyggðum en óvíða er tryggara framboð af hræjum til að vía í en þar. Víar einnig í sveppi. Í nágrannalöndunum er hræbokka sú maðkafluga sem sækir í holur og göng lítilla spendýra í mestum mæli. Sama má segja um varpholur sjófugla hér á landi. Hún er einnig þekkt fyrir að vía í sár dýra. Hræflugur hafa fundist hér á landi frá því snemma í júní til loka september. Þroski frá eggi til flugu tekur um mánuð við góðan sumarhita en lengur við lægra hitastig, allt að tvo og hálfan mánuð.

Almennt

Hræbokka er mjög algeng maðkafluga hér á landi og ber hana oft fyrir augu. Eins og fram hefur komið er hún algengasta maðkaflugan í sjófuglabyggðum og er einnig sú þeirra sem mest ber á í náttúru miðhálendisins. Maðkafluga á flögri þar í mólendi er að öllu jöfnu hræbokka.

Tegundin er auðþekkt frá öðrum maðkaflugum. Hún er afar breytileg að stærð en engar maðkaflugur verða stærri en stærstu hræbokkur. Frambolur er bláleitur en afturbolur háglansandi blágrænn. Andlitið er skínandi rauðgult og glittir á það í sólskini. Á karldýrum mynda kynfærin stóran hnúð neðan á afturendanum. Á kvendýrum snarmjókkar afturbolurinn í totu og er aftasti liðurinn alsettur sterkum burstum.

Hræbokka (Cynomya mortuorum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hræbokka (Cynomya mortuorum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Jensen, J.-K. & K.A. Thomsen 2009. Nøvn til føroyskar skinfluguslektir og -sløg. Veingjasuð 1: 8–9.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Rognes, K. 1991. Blowflies (Diptera, Calliphoridae) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 24. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd., Leiden. 272 bls.

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |