Kirkjubokka (Protophormia terraenovae)

Kirkjubokka - Phrotophormia terraenovae
Mynd: Erling Ólafsson
Kirkjubokkur í gluggakistu. ©EÓ
Kirkjubokka - Protophormia terraenovae
Mynd: Erling Ólafsson
Kirkjubokka. 10 mm. ©EÓ
Kirkjubokka - Phrotophormia terraenovae
Mynd: Erling Ólafsson
Kirkjubokkur innan á glugga eyðibýlis. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa til N-Skandinavíu og hálendis í sunnanverðum Noregi; Svalbarði, Færeyjar. Asía, N-Ameríka, Grænland.

Ísland: Algeng á láglendi um land allt og fundin víða á miðhálendinu.

Lífshættir

Kirkjubokkur finnast víðast hvar svo framarlega sem þær hafa aðgengi af hræjum til að verpa eggjum sínum í. Lirfurnar eru hraðvaxta og við hita um 27°C getur þroskatími frá eggi til flugu tekið aðeins um 11 daga. Við hefðbundnar íslenskar aðstæður er tíminn þó mun lengri. Lirfur geta púpað sig í hræjum ef þau eru ekki of blaut annars skríða þær úr þeim en fara skammt. Frá N-Ameríku eru þekkt dæmi um að flugurnar verpi í lifandi hreindýr, kýr og sauðfé, en slíkt er óþekkt á Norðurlöndum. Kirkjubokkur geta brúað vetur bæði sem fullorðnar flugur og ungviði. Hér á landi er ekki óalgengt að sjá þær á ferli að vetrarlagi þegar hlánar og sólargeislar verma húsveggi þar sem þar höfðu komið sér fyrir til vetrardvalar.

Almennt

Kirkjubokkur leita gjarnan inn í hús, ekki síst í óupphitað húsnæði. Þær safnast gjarnan fyrir í gluggum eyðibýla, sæluhúsa og gamalla sveitakirkna, stundum í miklum fjölda. Ekki fer samt sögum af sérstakri trúrækni þeirra. Þar skríða þær hver um aðra þvera, upp og niður rúðurnar í leit að útgönguleið, silalegar og þyngslalegar á flugi.

Kirkjubokka er auðþekkt frá öðrum maðkaflugum. Hún er einlit og gljáandi á allan bolinn, oftast bláleit en getur slegið yfir í grænleitan gljáa. Lirfurnar eru hefðbundnir hvítleitir, daunillir flugumaðkar og verða ekki aðgreindar frá lirfum annarra maðkaflugna nema með smásjárskoðun.

Kirkjubokka (Protophormia terraenovae) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Kirkjubokka (Protophormia terraenovae) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Jensen, J.-K. & K.A. Thomsen 2009. Nøvn til føroyskar skinfluguslektir og -sløg. Veingjasuð 1: 8–9.

Rognes, K. 1991. Blowflies (Diptera, Calliphoridae) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 24. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd., Leiden. 272 bls.

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |