Gerflugnaætt (Drosophilidae)

Almennt

Gerflugnaætt er tegundarík um heim allan en heildarfjöldi tegunda liggur ekki fyrir. Þekktust er ættkvíslin Drosophila en af henni einni eru þekktar um 1.500 tegundir. Í Evrópu eru skráðar um 120 tegundir gerflugna, þar af þriðjungur af ættkvíslinni Drosophila.

Gerflugur hafa einnig verið kallaðar ávaxtaflugur (fruit flies) en það heiti ber líka önnur ætt óskyldra tvívængja (Tephrididae). Tegundir þeirrar ættar eru meiriháttar skaðvaldar í ávaxtaframleiðslu og verðskulda forgang að heitinu ávaxtaflugur. Fræðiheitið Drosophila er dregið af grísku orðunum drósos sem merkir dögg og phílos sem merkir að elska.

Gerflugur eru smávaxnar flugur, oft gular á lit, gjarnan með áberandi rauð augu. Þær bera ýmis útlitseinkenni sem duga lengra komnum í fræðunum og verður ekki lýst hér.

Ein tegundanna, ediksgerla (Drosophila melanogaster), hefur áratugum saman verið notuð til gena- og erfðarannsókna í þágu mannkyns. Sennilega hafa fáar dýrategundir verið rannsakaðar í sama mæli og ediksgerlan. Hún er auðveld í ræktun og kynslóðaskipti ör sem hentar einkar vel til erfðarannsókna.

Lífshættir gerflugna eru afar fjölbreytilegir. Algengast er að lirfur alist upp í rotnandi sveppum og ávöxtum eða allskyns öðru groti. Sumar grafa sig í vefi plantna. Einnig finnast tegundir sem lifa sníkjulífi á öðrum smádýrum, ekki síst skjaldlúsum, jafnvel í eggjapokum köngulóa. Margar tegundir sækja í gerjun sem á sér stað samfara rotnun í ávöxtum eða við framleiðslu áfengra drykkja. Sumar eru skaðvaldar í ávaxtaræktun og aðrar geta borið með sér óæskilega gerla. Sem dæmi má nefna gerla sem eyðileggja gerjun  áfengra drykkja og breyta leginum í edik. Fæstar tegundanna eru þó til mikilla óþurfta. Þó sumar kunni að valda pirringi í híbýlum er ekki um beina skaðsemi að ræða af þeirra völdum.

Á Íslandi finnast aðeins 5 tegundir gerflugna, þar af tvær algengar í náttúrunni og þrjár af ættkvíslinni Drosophila innanhúss. Ein að auki hefur fundist ónafngreind.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |