Almennt
Svarmflugnaætt var lengi vel talin undirætt innan húsfluguættar (Muscidae). Hún er heldur fáliðuð með 285 tegundir þekktar í heiminum. Í Evrópu eru 83 tegundir skráðar, allar nema þrjár af ættkvíslinni Fannia. Ættin er tegundaríkust á norðurhveli.
Svarmflugur eru litlar til meðalstórar, oftast einlitar dökkar, jafnvel svartar, fætur sömuleiðis. Kvenflugur stundum ljósari en karlflugur en útlitsmunur er töluverður á kynjunum. Karlflugur hafa stór augu sem koma saman ofan á höfðinu en á kvenflugum eru augun vel aðskilin. Þá hafa karlflugur flatvaxinn afturbol sem mjókkar aftur. Afturbolur kvenflugna er belgvaxinn.
Hátterni karlflugna er sérstakt. Þær safnast saman þegar lygnt í flöktandi svarm, gjarnan undir trjágreinum, til að laða að sér kvenflugur. Hér á landi er ein tegund sem sækir inn í híbýli og áður fyrr þegar margra arma ljósakrónur hengu úr loftum svermuðu karlflugurnar undir þeim eins og trjágreinum. Lirfur alast upp í groti ýmiskonar í jafnt blautum sem þurrum jarðvegi, jafnvel í gripahúsum.
Á Íslandi finnast 9 tegundir svarmflugna, ein þeirra gjarnan í nánu sambýli við manninn þó ekki að öllu leyti háð honum.
Höfundur
Erling Ólafsson 3. janúar 2017.
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp