Lúsflugnaætt (Hippoboscidae)

Almennt

Ætt þessara afar sérhæfðu tvívængja er fáliðuð en 150 tegundir eru viðurkenndar í heiminum. Fjölbreytileikinn er mestur í hitabeltislöndum Asíu og Ameríku. Í Evrópu finnast um 30 tegundir.

Lúsflugur eru blóðsugur á spendýrum og fuglum. Líkamsbygging þeirra hefur aðlagast lífsháttunum aðdáanlega. Lúsflugur eru meðalstórar flugur, brúnar, grænbrúnar, rauðbrúnar á lit og allur bolurinn flatvaxinn, höfuð þar með talið, fætur leggjast flatir út frá bolnum. Þær eru ýmist með fullþroska vængi, skerta vængi eða vænglausar. Sumar tegundir hafa bæði vængjuð og vænglaus form. Þetta fyrirkomulag allt auðveldar flugunum að smjúga inn í feld  eða fjaðraham hýsla sinna. Sumar tegundir eru sérhæfðar á ákveðna hýsla, aðrar hafa öllu meira svigrúm, einkum þær sem eru fullfleygar. Fleira er sérstakt við lúsflugur. Lirfur þeirra þroskast inni í mæðrunum. Þær fæða síðan lirfurnar fullþroska púpa sig samstundis. Vísbendingar hafa fundist um að lúsflugur geti borið með sér smit í hýsla sína.

Á Íslandi hafa fundist 7 tegundir lúsflugna. Ein er landlæg allalgeng blóðsuga á fuglum um land allt. Færilús (Melophagus ovinus) var hér fyrrum útbreidd meinsemd á sauðfé en henni varð á endanum útrýmt með böðunum fjárins. Fimm tegundir að auki hafa borist til landsins með flækingsfuglum.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |