Snípuludda (Ornithomya chloropus)

Útbreiðsla

Nokkuð óljósar upplýsingar liggja fyrir um útbreiðslu snípuluddu. Þó má tilgreina N- og M-Evrópu, norðanverða Asíu, Austurlönd nær og N-Afríku.

Ísland: Láglendi um land allt og Hvítárnes sunnan undir Langjökli.

Lífshættir

Snípuludda er blóðsuga á fuglum, einkum landfuglum. Sem dæmi má nefna ránfugla og uglur, rjúpur og vaðfugla í mólendi, spörfugla. Hún er einstaklega vel aðlöguð sérhæfðu sníkjulífinu, bæði í hátterni og sköpulagi. Hún þarf að öllum líkindum að nærast daglega og eyðir því ekki löngum stundum utan hýsils og er fljót að grípa gæs þegar hún gefst, svo þekkt orðatiltæki sé notað. Kvendýr eru sennilega nokkuð langlíf, lifa jafnvel í nokkra mánuði á meðan mun fáséðari karldýr lifa skemur. Kvenflugan elur lirfu sína innvortis og lætur hana frá sér á afviknum stað á jörðu niðri fullþroskaða og tilbúna til að púpa sig. Púpur líkjast helst glansandi dökkum fræjum og liggja vetrardvalann. Þekktur flugtími hér er frá miðjum júní fram í miðjan október. Flestum flugum hefur verið safnað í júlí og ágúst.

Almennt

Snípuludda er mörgum kunnug og heldur illa þokkuð. Hún er þekkt undir ýmsum öðrum heitum, eins og fuglafluga, lúsfluga og gúmmífluga. Síðasttalda heitið hefur hún fengið vegna þess hve gúmmíkennd hún er og nær ómögulegt að kreista hana svo hún bíði skaða af. Þó hún sé kreist á milli fingra er hún jafnvíg eftir og hún var fyrir. Þessi eiginleiki kemur sér vel til að verjast goggum fuglanna. Þó snípuludda lifi nær eingöngu á fuglum þá ræðst hún á flest sem hreyfist, m.a. mannfólk. Það er hennar háttur að hverfa snögglega inn í fiðurfeld fugla og á sama hátt inn undir föt við lítinn fögnuð. Þaðan getur reynst erfitt að losna við hana nema helst með því að afklæðast. Þess má þó geta að snípuludda helst ekki við lengi á mannfólkinu. Það léttir henni heldur ekki samferðina með okkur að kláðinn sem henni fylgir er slíkur að óhjákvæmilegt er að bregðast við af hörku.

Snípuludda er auðþekkt frá öðrum íslenskum tvívængjum, en nokkrir áþekkir ættingjar hennar hafa borist til landsins með farfuglum. Einn ættingja átti hún hér til skamms tíma, þ.e. færilús eða sauðalús (Melophagus ovinus) sem var óværa til vandræða á sauðfé sem hefur nú væntanlega verið útrýmt með sauðfjárböðun. Færilús er vængjalaus og minnir í sköpulagi síst af öllu á tvívængju. Snípuludda er hins vegar vel vængjuð. Hún er mjög flatvaxin til að eiga auðvelt með að smeygja sér inn í fjarðaham fuglanna og komast að húð þeirra til að sjúga blóð. Reyklitaðir vængirnir liggja flatir yfir mjúkum og gjarnan samanskroppnum afturbolnum sem þenst út þegar hann fyllist af blóði eða þegar lirfa vex upp innvortis. Fætur standa flatt út frá bolnum og bifast afar hratt þegar flugan hleypur. Með snöggum hreyfingum sínum getur hún skotist til allra átta, jafnt áfram, aftur á bak og út á hlið. Hún er óútreiknanleg.

Útbreiðslukort

Heimildir

Hutson, A.M. 1984. Keds, Flat-flies amd bat-flies. Diptera, Hippoboscidae and Nycteribiidae. Handbooks for the Identification of British Insects. Vol. 10, Part 7. Royal Entomological Society of London. 40 bls.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Fauna Europaea. Ornithomya chloropus.http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=61983 [skoðað 28.3.2012]

Höfundur

Erling Ólafsson 28. mars 2012.

Biota

Tegund (Species)
Snípuludda (Ornithomya chloropus)