Mykjufluguætt (Scathophagidae)

Almennt

Mykjufluguætt er ekki mjög fjölskrúðug en um 500 tegundir eru þekktar í heiminum, flestar á norðurhveli. Þar af eru um 160 skráðar í Evrópu. Flestar eru meðalstórar dæmigerðar tvívængjur, sumar smáar aðrar allt að 12 mm að lengd. Þær eru breytilegar á lit, gular til svartar, oftast einlitar, stundum tvílitar. Sumar gljáa, aðrar eru þétthærðar á allan bolinn og virka þá groddalegar. Kúlulaga höfuð er vel aðskilið frá sterklegum frambol, augu vel aðskilin á báðum kynjum, afturbolur oft frekar mjór á karlflugum en egglaga á kvenflugum. Sterkir burstar á höfði, frambol og fótum. Fætur oftast glærir, stundum með dekkri kámum, stundum  með dökkar áberandi þveræðar.

Lífshættir lirfanna eru breytilegir. Sumar alast upp inni í laufblöðun, stofnum eða aldinum plantna, aðrar lifa á ránum í vatni og blautum jarðvegi eða í rotnandi plöntuleifum og skíthaugum. Flugurnar sjálfar veiða önnur smádýr og éta.

Mykjuflugan eina sanna er hvað þekktust tegundanna og er ættarheitið dregið af ættkvísl hennar. Scathophaga merkir í raun skítæta (leitt af grísku orðunum scatos = skítur og -phaga = æta), en lirfur tegundanna alast upp í skít. Því fer þó fjarri að það eigi við um ættina almennt. Fræðiheiti ættkvíslarinnar og þar með ættarinnar hefur oft verið ranglega stafsett Scatophaga. Sú ættkvísl er reyndar til yfir fiska.

Á Íslandi finnast sjö tegundir mykjufluguættar og er mykjuflugan eina sanna flestum kunnug eins áberandi og hún kann að vera þegar fjöldinn allur af gulhærðum karlflugum safnast saman á mykjuskán. Orðatiltækið „eins og mý á mykjuskán“ er án efa á misskilningi byggt. Eins og mykjuflugur á mykjuskán er nær sannleikanum.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |