Bitmýsætt (Simuliidae)

Almennt

Bitmý er samheiti yfir tegundir ættarinnar sem er af undirættbálki mýflugna (Nematocera). Í heiminum eru þekktar yfir 1.800 tegundir bitmýs og eru langflestar af ættkvíslinni Simulium. Í Evrópu eru um 230 tegundir skráðar undir 6 ættkvíslum. Ættkvíslin Simulium er þar tegundaríkust með um 185 tegundir.

Bitmýin eru litlar kubbslegar mýflugur, með stutta fætur og stutta fálmara, stóra og breiða vængi sem liggja flatir yfir bolnum þegar ekki á flugi. Svartar eða gráar á lit. Þær verpa eggjum í straumvötn og lirfurnar festa sig á steina á botninum með krókum á afturendanum og silkiþráðum. Á höfðinu hafa lirfurnar tvo sérkennilega marggreinda arma sem líkjast loftnetsgreiðum. Armarnir geta þanist út og dregist saman. Þeir grípa fæðuagnir, þörunga og gerla,  sem streyma fram hjá og lirfurnar skrapa afraksturinn upp í sig ótt og títt. Fullvaxnar spinna þær um sig kramarhúslaga hulstur áður en þær púpa sig. Þegar flugan skríður úr púpunni skýst hún upp að yfirborði í loftbólu. Hún er samstundis flugfær og flýgur upp úr vatninu. Lirfur eru næmar fyrir mengun í vatni.

Flestar tegundir nærast á blóði spendýra, þ.e. kvendýrin, en þau þurfa blóð til að þroska egg sín. Karldýr nærast á blómasafa. Mismunandi tegundir geta verið sérhæfðar á hýsla. Sumar geta flogið langar vegalengdir í leit að blóðgjöfum. Bitmý sýgur blóð að degi til einkum þegar vindur er hægur. Sumar tegundir eru afar íþyngjandi fyrir menn og skepnur. Í  hitabeltislöndum geta sumar borið sýkla í blóðgjafana. Hins vegar er bitmý afar mikilvægt í vistkerfum straumvatna og nágrenni þeirra, slíkur er lífmassi þess.

Hér á landi finnast fjórar tegundir bitmýs og er mývargurinn þeirra þekktastur. Þrjár tilheyra ætkvíslinni Simulium.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |