Mývargur (Simulium vittatum)

Útbreiðsla

Norður-Ameríka, Grænland.

Ísland: Um land allt.

Lífshættir

Mývargur elst upp í straumvatni. Kjöraðstæður eru við útfall næringarríkra stöðuvatna. Lirfurnar festa sig á steina í súrefnisríkri straumiðu oft í stórum og þéttum klösum. Þær grípa til sín lífrænar agnir úr vatninu, þörunga og överugróður, sem þær nærast á. Fullvaxnar spinna þær um sig úr silki kramarhúslaga hús á steinunum og púpa sig þar. Húsin snúa með opum undan straumi. Þegar fullþroska flugur skríða úr púpum skjótast þær upp úr vatninu í loftbólu og taka strax til vængjanna. Kvenflugurnar klekjast með þoskuð egg í sér en til að þroska fleiri egg þurfa þær að sjúga blóð úr mönnum, búsmala eða villtum spendýrum. Karlflugur sjúga ekki blóð en nærast á blómasafa.

Mývargur flygur frá vori og fram á haust. Fjöldinn er breytilegur, stundum einn flugtoppur, oft tveir, í júní til júlí sá fyrri og ágúst og allt fram í október sá síðari. Vaxtarhraði lirfa er mismunandi. Þar sem aðstæður eru góðar og vargurinn nær tveim kynslóðum á ári vaxa lirfur fyrri kynslóðar upp frá hausti og fram á vor. Seinni kynslóðar lirfur vaxa hins vegar upp á fáeinum vikum á miðju sumri. Við lakari aðstæður er varla nema ein kynslóð á ári og fer vaxtarhraði lirfanna eftir aðstæðum og fæðuframboði. Miklar stofnsveiflur geta verið á milli ára.

Almennt

Mývargur er tegund af norður-amerískum uppruna, sem finnst auk Íslands í norðanverðri Ameríku og á Grænlandi, en hvergi í Evrópu. Allir landsmenn kannast við mývarginn, margir af illu einu, einnig undir heitinu bitmý. Engin skordýr hér á landi eru eins áleitin við mann og búsmal og mývargur. Sumstaðar er fjöldinn gríðarlegur við uppeldisstöðvar í straumvötnum, jafnvel svo mikill að trauðla er líft fyrir ágangi flugnanna þegar þannig viðrar. Frægt er bitmýið við Laxá í Aðaldal, Sogið í Þingvallasveit og í Vatnsfirði á Barðaströnd. Mývargurinn berst stundum með vindum langar vegalengdir frá uppeldisstöðvum. Bitin eru oft bagaleg og viðbrögð húðar stundum heiftarleg, í formi roði, bólgna og mikils viðvarandi kláða.

Mývargur er afar mikilvægur í fæðukeðjum straumvatna hér á landi, þvílíkur er lífmassinn. Laxfiskar og endur, t.d. straumönd og húsönd, kafa eftir lirfunum og jafnt fiskar og fuglar tína flugur af yfirborði vatna.

Mývargur (4 mm) og aðrar tegundir bitmýs skera sig vel frá öðrum gerðum mýflugna. Mýin eru kubbsleg, stutt og með mikinn frambol. Afturbolur er grennri, mjög teygjanlegur og getur þanist mikið út af blóði. Höfuð er breiðara en langt, kvendýr með hliðstæð augu, karldýr með mjög stór augu sem ná saman ofan á höfðinu og stækka það til muna. Frambolur karldýrs er auk þess hár og kúptur. Fálmarar eru stuttir og tiltölulega breiðir. Kvenflugur hafa bitmunn sem gefur frá sér munnvatn með ensímum og histamíni sem þenja háræðar og hindra blóðstorknun. Bolur kvendýra er grár með dekkri langrákum á frambol og flekkjum á afturbol, en að mestu svartur á karldýrum. Fætur eru stuttir, einnig gráir en með ljósum beltum. Vængir nokkuð stórir og breiðir með einkennandi vængæðakerfi, sterkar æðar á framanverðum væng en aðrar æðar daufar. Vængir liggja flatir yfir bolnum. Lirfurnar hafa sérkennilega greiðulaga arma á hausnum til að grípa fæðuagnir sem renna hjá.

Útbreiðslukort

Heimildir

Gísli Már Gíslason 1985. The life cycle and production of Simulium vittatum Zett. in the River Laxá, North-East Iceland. Verh. Internat. Verein. Limnol. 22: 3281–3287.

Gísli Már Gíslason & Arnthór Gardarsson 1988. Long term studies on Simulium vittatum Zett. (Diptera: Simuliidae) in the  River Laxá, North Iceland, with particular reference to different methods used in assessing population changes. Verh. Internat. Verein. Limnol. 23: 2179–2188.

Helgi Hallgrímsson1976. Mývargur. Týli 6: 59–64.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Vigfús Jóhannsson 1984. Fæða bitmýslirfa í Laxá S.-Þing. Náttúruverndarráð, Fjölrit nr. 14: Rannsóknastöðin við Mývatn, skýrsla 2: 59–64.

Höfundur

Erling Ólafsson 23. mars 2017, 28. apríl 2017

Biota

Tegund (Species)
Mývargur (Simulium vittatum)