Skógarsveifa (Dasysyrphus tricinctus)

Skógarsveifa - Dasysyrphus tricinctus
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarsveifa, 10 mm. ©EÓ
Skógarsveifa - Dasysyrphus tricinctus
Mynd: Erling Ólafsson
Skógarsveifa, 10 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa suður til Pyreneafjalla og Alpafjalla, norður um Skandinavíu nema allra nyrstu héruð Noregs, austur eftir Síberíu til Kyrrahafs og Japans.

Ísland: Dreifðir fundarstaðir á láglendi í öllum landshlutum nema enn ófundin á norðvestanverðu landinu.

Lífshættir

Birkiskógar eru búsvæði skógarsveifu, rjóður og skógarjaðrar. Fátt er annars vitað um lífshætti hennar hér á landi. Þekktur flugtími er frá miðjum júní til loka júlí sem bendir til einnar kynslóðar á sumri. Á Norðurlöndum flýgur skógarsveifa frá maí til september og er talið að hún nái þar tveim kynslóðum á ári. Auk þess að lifa á blaðlúsum éta lirfurnar þar í heimi lirfur fiðrilda og blaðvespna á trjánum.

Almennt

Skógarsveifa er tiltölulega sjaldgæf tegund hér á landi. Þó má sjá hana sveima í nokkrum fjölda á sólríkum hlýjum dögum í skjólgóðum sunnlenskum birkiskógum, þar sem hún leitar á víðirekla og ýmis blóm í skógarrjóðrum. Þetta er falleg fluga og auðþekkt frá öðrum sveifflugum, mjög dökk, gljáandi, svarblá, með einkennandi randamynstri á egglaga afturbol. Yfir miðjan bolinn liggur samfellt eða nær samfellt áberandi nokkuð breitt gult belti sem grípur strax augun. Framar eru tveir litlir gulir blettir og aftan við miðbeltið tvö örmjó gul belti slitin í miðju. Þó þetta fyrirkomulag sé algengast þá sýnir tegundin nokkurn breytileika eins og margar tegundir sveifflugna. Stundum er t.d. einungis miðbeltið til staðar. Haus er með svart enni, en andlitið gult með svarta miðrönd frá fálmurum niður á svartan munnkant.

Skógarsveifa (Dasysyrphus tricinctus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Skógarsveifa (Dasysyrphus tricinctus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Rådén & E. Nasibov 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Syrphinae. Diptera: Syrphidae: Syrphinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsalir.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |