Perlusveifa (Eupeodes latifasciatus)

Perlusveifa - Eupeodes latifasciatus
Mynd: Erling Ólafsson
Perlusveifa. 9 mm. ©EÓ
Perlusveifa - Eupeodes latifasciatus
Mynd: Erling Ólafsson
Perlusveifa. 9 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel; Skandinavía suður til N-Afríku, austur um Síberíu til Kyrrahafs, suður til Afganistans og Indlands; N-Ameríka frá suðvestanverðum BNA norður til Alaska.

Ísland: Fundarstaðir dreifðir, flestir um landið sunnanvert frá höfuðborgarsvæðinu austur í Öræfi, auk þess Hvammssveit í Dölum, Reykjadalur í S-Þingeyjarsýslu og á miðhálendinu við Innri-Skúta á Kjalvegi og í Fagradal á Möðrudalsöræfum.

Lífshættir

Perlusveifa finnst einna helst í votlendi, gjarnan við ylvolgar uppsprettur og í gróðurríkum skurðum með hófsóleyjum og öðrum blómplöntum. Flugtíminn hefst í seinni hluta maí og varir til seinni hluta ágúst, með hámark á miðju sumri. Lirfurnar nærst á blaðlúsum.

Almennt

Perlusveifa uppgötvaðist hér fyrst í Reykjavík 1980. Hún á þó eflaust mun lengri sögu hér á landi, því sveifflugur af þessu tagi höfðu lengi vafist fyrir mönnum. Nokkrar tegundir ættkvíslarinnar Eupeodes (áður Metasyrphus) hafa verið staðfestar héðan í seinni tíð og tegundagreiningar leiðréttar. Góða yfirsýn og reynslu þarf til aðgreina tegundirnar og ekki verður leiðbeint hér í þeim efnum svo dugi óyggjandi. Perlusveifu má þó oft þekkja á því að gulir blettir á afturbol eru oftast það stórir að þeir ná að taka allt að helming yfirborðsins. Stundum ná samstæðir blettir saman á miðjum bolnum. Framrönd blettanna er oftast nokkuð bein eða aðeins lítillega hvelfd aftur. Andlitið er gult, munnkantur svartur og augu nakin. Perlusveifa telst sjaldgæf.

Perlusveifa (Eupeodes latifasciatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Perlusveifa (Eupeodes latifasciatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Rådén & E. Nasibov 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Syrphinae. Diptera: Syrphidae: Syrphinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsalir.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |